Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Ég er bæði sorgmædd og reið“

28.03.2017 - 12:14
Mynd: RÚV / RÚV
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra kveðst bæði sorgmædd og reið vegna áforma HB Granda um að hætta botnfiskvinnslu á Akranesi. Á fyrirtækinu hvíli rík samfélagsleg ábyrgð og því beri að tryggja trausta byggð og atvinnu í landinu samkvæmt lögum.

HB Grandi áformar að hætta botnfiskvinnslu á Akranesi og sameina hana við vinnslu fyrirtækisins í Reykjavík. Ljóst er að ákvörðunin mun hafa áhrif á fjölmargar fjölskyldur á Skaganum. Að óbreyttu missa 93 vinnuna, þar sem konur eru í miklum meirihluta, en tilkynnt verður á morgun um hversu mörgum verður sagt upp og hvort einhver starfanna flytjist til Reykjavíkur.

„Ef við getum komið að gagni, þá erum við klár“

Þingmenn kjördæmisins og bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hittust á neyðarfundi í Ráðhúsi bæjarins í gærkvöldi til að ræða stöðuna sem upp er komin. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sat fundinn. Hún segir ákvörðun fyrirtækisins reiðarslag fyrir samfélagið upp á Skaga, en engin eiginleg niðurstaða hafi orðið á fundinum.

„Auðvitað langar mann að sjá starfsemina áfram á Akranesi, og uppbygginguna þar, og ef hún þarf að vera á einum stað þá auðvitað langar okkur að sjá hana á Akranesi,“ segir Þordís Kolbrún í samtali við fréttastofu. „En þetta er í höndum, og samskiptin eru þarna á milli bæjarstjórnar, bæjarfulltrúa og fyrirtækisins. Ef að við getum einhvern veginn komið að gagni þá erum við auðvitað klár.“

Höfðar til samfélagslegrar skyldu HB Granda

Áform HB Granda voru rædd á ríkisstjórnarfundi í morgun. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, kveðst gríðarlega sorgmædd yfir ákvörðun fyrirtækisins og segir ríka samfélagslega ábyrgð hvíla á herðum sjávarútvegsfyrirtækja. 

„Að fylgja meðal annars eftir fyrstu grein fiskveiðistjórnunarlaga sem að ekki bara felur í sér ákvæði um sameiginlega auðlind þjóðarinnar heldur ekki síður hitt að treysta byggð og atvinnu í landinu,“ segir Þorgerður Katrín í samtali við fréttastofu. „Þannig að ég bara trúi ekki öðru en að menn fari vel yfir þetta og ég höfða mjög til samfélagslegrar ábyrgðar þarna.“

Sjávarútvegsfyrirtæki verði að fara varlega

Þorgerður lítur málið mjög alvarlegum augum, og minnir á að fiskvinnslufólk og fólk í afleiddum störfum í landi, sem nú sé mögulega að fara að missa vinnuna, hafi komið langverst út úr nýafstöðnu sjómannaverkfalli, því lengsta í sögunni.

„Við erum fyrirmyndarþjóð á sviði fiskveiða, en hluti af því að vera til fyrirmyndar er að horfa til þess samfélags sem við búum í og það er viðkvæmt og það ber sérstaklega að horfa til þeirra starfa sem eru í tengslum við sjávarútveg hvort sem það eru í veiðunum sjálfum en ekki síður í vinnslunni í landi,“ segir Þorgerður Katrín. „Ég er bæði sorgmædd og reið og sérstaklega eftir mjög erfitt tíu vikna sjómannaverkfall þar sem að ég hefði nú haldið að menn ættu að átta sig á því að þeir sem að fara með nýtingaréttinn í þágu þjóðarinnar verði að fara varlega.“

Vonast eftir farsælli lausn

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir að samtöl hafi átt sér stað milli bæjaryfirvalda og HB Granda í dag, en engir formlegir fundir séu fyrirhugaðir. Í tilkynningu frá sjávarútvegsfyrirtækinu í gær segir að hvorki sé hafnaraðstaða né aðstaða til vinnslu alls botnfiskafla ísfisktogara HB Granda á Akranesi og forsvarsmenn félagsins og Akranesbæjar eigi í viðræðum um mögulegar breytingar á því. Sjávarútvegsráðherra vonar að málið hljóti farsæla lausn.   

„Eins og staðan er núna þá sé ég ekki að við getum gert eitthvað ákveðið annað en að fylgjast vel með, skapa þrýsting að vissu leyti, og reyna að halda vel utan um fólkið í samvinnu við bæði verkalýðshreyfinguna og bæinn og svo framvegis,“ segir Þorgerður. „En ég bind ennþá vonir við, og kannski af því að ég er pínu Pollýana í mér, að þetta leysist farsællega.“