Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Ég er alltaf brattur að eðlisfari“

26.03.2019 - 15:06
Mynd:  / 
„Staðan er ágæt eftir fréttir dagsins. Skuldabréfaeigendur voru að samþykkja það að breyta kröfum sínum í hlutafé sem styrkir félagið verulega,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri WOW air. Hann segir að enn sé mikil vinna fyrir höndum.

„Eins og hefur komið fram þá erum við jafnframt að fara í hlutafjáraukningu og sú vinna er í fullum gangi með okkar ráðgjöfum. Við höfum fengið ágætis móttökur það sem af er,“ segir Skúli.

Forsvarsmenn WOW air hafa unnið hörðum höndum að því undanfarna daga að bjarga flugfélaginu frá gjaldþroti síðan Icelandair ákvað að fjárfesta ekki í rekstrinum á laugardaginn. Þar áður hafði bandaríska fjárfestingafélagið Indigo partners hætt við fjárfestingu í félaginu, eins og til hafði staðið síðan í desember.

Hann segir að slæm skuldastaða WOW air hafi verið ástæða þess að viðræðum við Indigo partners var slitið. „Já, þetta var tvímælalaust atriði sem var að þvælast fyrir.“

Stór og mjög jákvæður áfangi

Spurður hversu lengi hann getur fleytt félaginu áfram miðað við núverandi stöðu segir Skúli að hann taki einn dag í einu. „Við erum að vinna með öllum aðilum, kröfuhöfum og stjórnvöldum í að tryggja langtímafjármögnun félagsins. Þeirri vinnu miðar vel áfram.“

„Við erum að vinna þetta mjög hratt og það að ná þessum kröfuhöfum saman á þetta skömmum tíma, á nokkrum dögum, er stór og mjög jákvæður áfangi,“ segir Skúli. „Þannig að það er verið að vinna mjög hratt.“

Skúli segir að eflaust hefði umræða um að fá skuldabréfahafa í félaginu til að breyta skuldum sínum í hlutafé átt að fara fram fyrr. „Stundum eru hlutirnir þannig að þeir þurfa að vera komnir í ákveðinn farveg til þess að það sé hreinlega hægt að taka fast á málum og núna var staða félags orðin mjög þröng, og er mjög þröng, það liggur alveg fyrir og þar af leiðandi þurfum við að vinna hratt. Það er öllum ljóst að það þarf að gera þetta hratt. Þannig að kannski núna eru aðstæður þannig að þetta er orðið gerlegt.“

Framhaldið í höndum hluthafa

Skúli Mogensen segist vera mjög þakklátur fyrir stuðninginn sem hann hefur fengið. Hann þakkar sérstaklega stuðning frá starfsfólki WOW air sem hann segir hafa unnið kraftaverk við að halda fyrirtækinu gangandi.

„Ég er náttúrlega bara mjög þakklátur fyrir þann gríðarlega stuðning sem ég hef fundið fyrir og fengið frá öllum áttum, bæði hérlendis og erlendis. Ekki síst frá okkar frábæra starfsfólki sem hefur unnið algert kraftaverk hérna alla daga við að halda þessu gangandi.“

„Ég hef mjög gaman af því sem ég er að gera og hef fulla trú á félaginu. Augljóslega verður það í höndum nýrra eigenda, ég verð áfram hluthafi en einn af mörgum, og ég tel það styrk fyrir félagið að fá marga hluthafa að félaginu. Það verður í þeirra höndum að ákveða framhaldið.“

Hvernig líður þér með stöðuna? „Ég er alltaf brattur að eðlisfari og það er ekki síst þessi hvatning sem ég hef fengið frá okkar fólki, frá starfsfólkinu hérna og fólkinu í landinu sem gefur mér þann kraft að halda þessari baráttu áfram. Ég hef fulla trú á því að við klárum þetta verkefni.“