Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Ég er að frumsýna hérna fullt af karakterum“

Mynd: Andri Viðarsson / RÚV

„Ég er að frumsýna hérna fullt af karakterum“

09.11.2017 - 13:07

Höfundar

Þórhallur Sigurðsson, betur þekktur sem Laddi, leikari og skemmtikraftur til áratuga hefur opnað myndlistarsýningu. „Ég er búinn að fikta við þetta í nokkur ár. Ég byrjaði þegar ég var sextugur en ég ætlaði alltaf að verða myndlistarmaður þegar ég var unglingur,“ útskýrir Laddi. Þetta er hans fyrsta einkasýning.

Laddi segir að í lífi hans hafi hreinlega ekki verið pláss fyrir myndlistina fyrr en nú en eins og alþjóð veit gerði Laddi það gott sem grínisti, leikari og tónlistarmaður á mjög fjölbreyttum vettvangi.

„Það er sami kvíðinn og spennan í maganum út af þessari sýningu. Þetta er eins og að frumsýna bara. Ég er að frumsýna hérna fullt af karakterum, sem eru mínir karakterar,“ segir Laddi um myndirnar sínar. Karakterarnir eru ekki mennskir og sumir dálítið furðulega samsettir. „Kannski eru þetta álfar úr hrauninu í Hafnarfirði og kannski eru þetta geimverur,“ útskýrir hann.

Íslendingar tengja Ladda aðallega við grín og glens en hann segir að í myndlistinni sé honum fúlasta alvara. „Þetta er alls ekkert grín, þetta eru ekki skopteikningar, þetta er alvara. Þetta er sú mesta alvara sem til er hjá mér. Kannski fer fólk að hlæja til að byrja með, og það er allt í lagi. Það má alveg hlæja fyrst, en svo held ég að fólk þagni þegar það fattar það, „honum er alvara drengnum“,“ segir Laddi hlær.

Sýningin heitir LADDI og var opnuð í Smiðjunni listhúsi við Ármúla 36 9. nóvember.