Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Eftirspurn eftir mannkostamenntun

19.01.2018 - 15:11
Mynd: Brodie Vissers / burst.shopify.com/Creative commo
„Það er mikið hungur víða um heim eftir því að fylla eitthvert tómarúm sem fólki finnst vera í skólakerfinu“ segir Kristján Kristjánsson heimspekingur.

Kristján er prófessor við Háskólann í Birmingham og starfar við Jubilee-rannsóknarmiðstöðina fyrir mannkosti og dygðir en hún er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum og þar eru stundaðar rannsóknir og gerð námsefnis í mannkostamenntun.

Í mannkostamenntun er áherslan lögð á dygðir eins og réttlæti, hugrekki, þakklæti, heiðarleika. Kristján segir hægt að flétta umræðu um dyggðir og siðfræði inn í einstakar greinar eins og bókmenntir, íþróttir og líffræði og ræða mannkosti og hvernig þeir endurspeglast í því sem verið er að kenna og hvaða lærdóm nemendur geta dregið af því.

Í rannsókn á vegum Jubilee Center í Bretlandi sögðu 90% foreldra í 1000 manna rannsókn að það væri jafn mikilvægt að skólinn hjálpaði til að gera börn að betri manneskjum og kennsla hefðbundinna greina og slíkt ætti að flétta inn í kennsluna.

Í stórum rannsóknum á vegum stofnunarinnar hefur meðal annars verið felld  af stalli sú goðsögn að íþróttir séu ein meginleiðin til að byggja upp mannkosti og siðferðilegar dyggðir. Engin fylgni fannst þar á milli. Hins vegar var sterk fylgni milli mannkosta og þess að syngja í kór og taka þátt í leiklistarstarfi og ýmis konar annarri tómstundastarfsemi utan skóla.

Kristján undirstrikar þó að þar sé um fylgni að ræða en ekki endilega orskasamband.

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður