Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Eftirlitið í gegnum samfélagsmiðla mjög virkt

08.02.2016 - 20:57
Mörgum blöskrar tilraun Hótel Adams í miðborg Reykjavíkur til að selja ferðamönnum vatn á flösku, með því að ráða þeim frá því að fá sér vatnssopa úr krananum. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir svona mál ekki vera sérstaklega tilkynnt til þeirra, en vel sé fylgst með þeim dæmum sem upp koma á samfélagsmiðlum eins og Trip Advisor og Facebook. Þótt einstaka dæmi rýri kannski ekki trúverðugleika og orðspor, þá skipti öll umræða máli.

Helga segir kannanir sýna að almennt séu ferðamenn ánægðir með vörur og þjónustu hérlendis. Hins vegar megi til sanns vegar færa að það vanti lög og regluverk, skilvirkari ramma fyrir þau fyrirtæki sem eru að koma ný inn í þessa ört vaxandi atvinnugrein. Þannig sé hægt að tryggja ákveðinn gæðastaðal.

Auðvitað viljum við ekki svona fréttir. En staðan er samt sú að svona hlutir gerast. Eftir því sem fleiri rekstraraðilar koma inn í greinina, þá því miður virðast einhverjir vera að misstíga sig svona.“

Sem betur fer séu margir rekstraraðilar sem standi sig með mikilli prýði og þess vegna hafi þessi dæmi þar sem er verið að reyna að plata ferðamenn eða selja þeim lélega vöru ekki haft áhrif á heildarmyndina. 

„Það er mjög skilvirkt og öflugt eftirlit í gegnum þessa samfélagsmiðla.“

Helga segir 1.300.000 ferðamenn hafa komið til landsins í fyrra og enn stefni í mikla fjölgun í ár.