Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eftirlit með ferðum starfsmanna í lagi

17.09.2019 - 07:05
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: Rúv
Persónuvernd telur í lagi að Mannvirkjastofnun fylgdist með ferðum starfsmanna á bíl stofnunarinnar. Til dæmis er fylgst með því hvar bíllinn er hverju sinni og hvert honum hefur verið ekið. Tilgangur þessa var meðal annars að vakta nýtingu opinbers fjár og afla upplýsinga um notkun og ástand ökutækisins.

Vöktunin þjóni margvíslegum tilgangi

Mannvirkjastofnun kom fyrir rafrænum staðsetningarbúnaði, eða ökurita, í bílnum til að fá upplýsingar „um notkun bifreiðar, ástand hennar, eldsneytiseyðslu, bilanir, staðsetningu hennar og akstursleið sem og aksturshraða og gæðaakstur.“

Þetta var talið nauðsynlegt meðal annars vegna græns bókhalds stofnunarinnar og mögulegra skaðabótakrafna ef slys yrði við akstur. Einnig var með þessu verið að vakta nýtingu opinbers fjár, „sérstaklega hvað varði eftirlit með ferðum starfsmanna sem myndi grundvöll fyrir greiðslu dagpeninga,“ segir í svörum Mannvirkjastofnunar. 

Réttindi og frelsi starfsmanna veigaminni 

Í úrskurði Persónuverndar segir að vöktunin teljist „heimil á grundvelli lögmætra hagsmuna sem vegi þyngra en réttindi og frelsi hins skráða.“

Til að mynda sé vöktun nýtingu opinbers fjár í lagi þar sem hún geti talist nauðsynleg „vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili fer með“. 

Ekki gætt að fræðslu eða varðveislutíma

Hins vegar taldi Persónuvernd að ekki hefði verið nægilega gætt að fræðslu um vöktunina. Starfsmenn hefðu ekki verið upplýstir með fullnægjandi hætti um vöktunina og vinnslu tengda henni.

Einnig hefði ekki verið gætt að varðveislutíma upplýsinga sem söfnuðust við vöktunina. Í lögum segir að aðeins megi geyma persónuupplýsingar sem verða til við vöktun í níutíu daga. Þá skuli þeim eytt. Hins vegar voru upplýsingar úr ökurita Mannvirkjastofnunar varðveittar í þrjú ár.

Töldu ekki um persónuupplýsingar að ræða

Klappir Grænar lausnir sjá um vistun og úrvinnslu upplýsinga sem safnast við notkun ökurita fyrir Mannvirkjastofnun. Stofnunin taldi ekki að Klappir ynnu með persónuupplýsingar og gerði því ekki vinnslusamning við fyrirtækið, líkt og lög um persónuvernd kveða á um. 

Persónuvernd sagði ámælisvert að Mannvirkjastofnun teldi að ekki væri „unnið með persónugreinanlegar upplýsingar þegar umræddar upplýsingar eru það í reynd, og raunar taldar fram sem slíkar í vinnsluskrá stofnunarinnar, ásamt því að samþykktir eru skilmálar er varða vinnslu persónuupplýsinga,“ og lagði fyrir Mannvirkjastofnun að gera nýjan vinnslusamning við Klappir sem uppfylli lög um persónuvernd. 

„Að mati Persónuverndar er verulega ámælisvert að opinber stofnun samþykki skilmála um vinnslu persónuupplýsinga við vinnsluaðila án þess að gera sér grein fyrir að stofnunin sé ábyrgðaraðili sem ber ríkar skyldur samkvæmt lögum um vinnslu persónuupplýsinga,“ segir í úrskurðinum.