Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Eftirlíking af tunglferju á Húsavík

13.11.2015 - 16:05
Mynd með færslu
 Mynd: NASA
Stefnt er að því að smíða eftirlíkingu af tunglferjunni sem lenti á tunglinu árið 1969 og hafa til sýnis á Húsavík. Það er Könnunarsafnið á Húsavík sem stendur að þessari endurgerð. Viðræður um fjármögnun verkefnisins standa yfir.

Eftirlíking af tunglferjunni frá 1969
Örlygur Hnefill Örlygsson formaður stjórnar Könnunarsafnsins á Húsavík segir að hann hafi lengi unnið að undirbúningi þessa verkefnis, eða í um eitt ár. Hugmyndin sé að byggja eftirlíkingu af tunglferjunni sem að þeir Neil Armstrong og Buzz Aldrin notuðu til að lenda á yfirborði tunglsins.

Örlygur segir að hann sé búin að fá teikningar af tunglferjunni frá NASA en hún er um það bil 5 metrar á hæð, lengd og breidd. Hún er að mestu smíðuð úr áli.

„Það er skelin sem við ætlum að láta smíða en það er ekki gert ráð fyrir að það sé nein virkni í henni. Þetta er svolítið eins og að smíða bíl með engri vél." Segir Örlygur.

Verði til sýnis árið 2019
Örlygur segir að til þess að hægt sé að sýna tunglferjuna á Könnunarsafninu þurfi að byggja við safnið. Hann segir að um sé að ræða töluverða fjárfestingu en það standi yfir viðræður við aðila sem hafi sýnt áhuga á að koma að þessu verkefni. Gangi allt eftir er stefnt að því að tunglfarið verði tilbúið til sýningar árið 2019 en þá eru 50 ár frá því að þeir Neil Armstrong og Buzz Aldrin lentu á tunglinu

Freyja Dögg Frímannsdóttir
Fréttastofa RÚV