Eftirbátur annarra í þjónustu við sprautufíkla

30.05.2016 - 19:23
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Ísland er mikill eftirbátur annarra Evrópuþjóða þegar kemur að því að veita virkum sprautufíklum viðeigandi þjónustu og lítið fer fyrir vímuefnastefnu stjórnvalda. Þetta segir Ísabella Björnsdóttir, félagsráðgjafi á fíknigeðdeild Landspítalans. Hún er fylgjandi því að skaðaminnkandi úrræði verið efld.
Mynd með færslu
 Mynd: EBU

Hvað er skaðaminnkun?

Skaðaminnkun er nálgun sem hefur það að markmiði að draga úr eða koma í veg fyrir skaðlegar afleiðingar vímuefnanotkunar á neytendur, fjölskyldur þeirra og samfélagið allt. Neytendum er mætt á jafnréttisgrundvelli, þar sem þeir eru staddir án þess að þeir séu dæmdir eða farið sé fram á að þeir bindi enda á neysluna. 

Tvær nálganir ráðandi

Ísabella segir að á Íslandi í dag séu tvær nálganir ráðandi þegar kemur að því að taka á vímuefnavanda. Annars vegar siðferðisleg stefna sem felur í sér að vímuefnavandi endurspegli siðferðislega veikleika neytandans og tillitsleysi við ríkjandi gildi samfélagsins. Því þurfi að bregðast við með refsingum og bönnum. Hins vegar sjúkdómsstefna sem felur í sér að fíkn sé heilbrigðisvandi sem bregðast þurfi við með meðferð og ævilöngu bindindi. Önnur þeirra skilgreini vandann sem lögbrot, hin sem heilbrigðisvanda en báðar hafi það að markmiði að uppræta neysluna. Reynslan hafi þó sýnt að það sé ekki raunhæft að uppræta alla vímuefnaneyslu í samfélaginu. Þessar ríkjandi stefnur mæti ekki þeim neytendum sem ekki vilji eða geti hætt neyslunni heldur ýti þeim út á jaðar samfélagsins. Á grunni þessa var farið að þróa hugmyndafræðina um skaðaminnkandi nálgun. Hún er viðbót við þau úrræði sem fyrir eru, leið til að mæta þeim sem eru í virkri neyslu. 

„Hún er mjög tengd lýðheilsusjónarmiðum, hvað gagnast samfélaginu. Að hafa nálganir varðandi þennan hóp til að draga úr skaða, og líka mannréttindum, þetta er jaðarsettur hópur sem er erfitt að nálgast og almenningur upplifir þetta sem mjög andfélagslega hegðun að sprauta sig með vímuefnum og á mjög erfitt með að skilja þetta. Með skaðaminnkun er verið að horfa til þess að það sé samfella í þjónustu. Að við séum líka að þjónusta þá sem eru í neyslunni. Ef við erum með stefnu í þessum málum þá eru allar stofnanir að vinna saman.“ 

Hún segir þó lítið hafa farið fyrir vímuefnastefnu stjórnvalda. Í dag eru það einkum félagasamtök á borð við Rauða krossinn, sem leggja upp úr skaðaminnkandi nálgun. Minna hefur farið fyrir henni hjá því opinbera. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Má rekja nálgunina aftur til upptaka eyðnifaraldursins 

Sögu nálgunarinnar má rekja aftur til áttunda áratugarins, þegar eyðnivandinn var farinn að valda fólki miklum áhyggjum. Í Hollandi  fóru samtök fíkla að dreifa sprautabúnaði og komu á samstarfi við heilbrigðisyfirvöld. Í Bretlandi áttu stjórnvöld aftur á móti frumkvæðið að því að fara að veita sprautufíklum aðstoð; útvega þeim hreinar nálar og bjóða þeim heilbrigðisþjónustu. 

Þrenns konar forvarnir

Ísabella segir að horfa megi á þetta út frá forvörnum. Fyrsta stigs forvarnir miða að því að koma í veg fyrir að fólk hefji neyslu, annars stigs forvarnir eru meðferðarúrræði sem miða að því að stöðva neyslu og skaðaminnkandi aðgerðir sem miða að því að takmarka skaða sem virkir neytendur verða fyrir við neyslu flokkist sem þriðja stigs forvarnir. 

Skaðaminnkun felst í ákveðnu verklagi og inngripum. Það að útvega hreinar nálar er einn þáttur en það að veita fræðslu og ræða við fíklana á þeirra forsendum skiptir líka máli. 

„Að reyna að ná samtalinu og traustinu, fá tækifæri til þess að fræða þá um hvernig þeir geta tekið ábyrgð á sinni neyslu og verndað sjálfa sig gagnvart áhættum í umhverfi þeirra sem eru mjög miklar. Oft eru þeir bara í samfélagi með öðrum sprautufíklum, mjög jaðarsett, mjög niðurbrjótandi samfélagi, þannig að það er gott fyrir þá að koma, hitta fólk sem er á öðrum stað í lífinu og veitir þeim áhugahvetjandi og uppbyggjandi samtöl og þjónustu.“

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Við Geðdeild Landspítala.

Allt að því þúsund virkir sprautufíklar hérlendis

Sprautufíkn er ein alvarlegasta birtingarmynd vímuefnavanda. Ísabella áætlar að um 700 til 1000 manns séu virkir sprautufíklar hér á landi.  Hún segir að sóknarfærin til þess að þróa þjónustu við þennan hóp áfram hér á landi séu mörg. Til dæmis sé lífsnauðsynlegt að bæta aðgengi fíkla að Naloxone, efni sem dregur úr hættu á ofskömmtun.  Það lyf er ekki hægt að misnota líkt og lyfið Suboxone sem gengur kaupum og sölum inni á Litla-Hrauni. Nú er efnið hvorki aðgengilegt í gistiskýlum né í úrræði Rauða krossins, sjúkrabílnum Frú Ragnheiði. Víða erlendis geta fíklarnir sjálfir fengið birgðir af lyfinu og haft það við höndina taki einhver neyslufélagi þeirra of stóran skammt. Rauði krossinn hefur rekið Frú Ragnheiði, skaðaminnkandi úrræði, frá árinu 2009. Frú Ragnheiður er uppgerður sjúkrabíll sem ekur um götur Reykjavíkur á hverju virku kvöldi. Þar geta sprautufíklar nálgast hreinar nálar og fengið fræðslu. Ísabella sér fyrir sér að hægt væri að efla þetta úrræði verulega. Að í Frú Ragnheiði mætti bjóða upp á skimun fyrir smitsjúkdómum á borð við eyðni og lifrarbólgu C. Að þar gætu fíklar nálgast sýklalyf. Hún segir mikilvægt að gera fíklum hér á landi kleift að neyta efnanna við öruggar aðstæður. Hugsanlega sé þó ekki þörf á sérstökum neyslurýmum hér, þar sem hópurinn sé dreifður, heldur frekar á færanlegu úrræði sem gæti komið til þeirra. 

Mikið um rítalínfíkla

Hér á landi eru aðstæður um margt ólíkar aðstæður í nágrannalöndum okkar og Ísabella segir þær skaðaminnkandi aðgerðir sem ráðast þarf í taka mið af því. Til dæmis eru margir sem sprauta sig með rítalíni, víman af því er skammvinn og þeir þurfa því að sprauta sig margoft á dag með tilheyrandi álagi á æðakerfið. Þessi hópur þurfi sérstök úrræði. 

„Af því þessi hópur er svo ósýnilegur, svo jaðarsettur og hefur enga rödd þá finnst almenningi og okkur sem tilheyrum miðjunni, okkur finnst þeirra þarfir svo óraunsæar og tilætlunarsamar. En þetta er mjög nauðsynlegt fyrir þau að geta skilað af sér sprautubúnaði annað en í almenningsrusl, það er eitthvað sem þau þurfa að geta haft aðgengi að en það er ekki til staðar. Líka það að geta sprautað sig á hreinum stað með hreinum búnaði, fyrst þetta er það sem þau eru að gera. Almenningur og þeir sem skilja þetta ekki verða að venjast tilhugsuninni og þess vegna er fræðsla rosa mikilvæg.“

Mynd með færslu
 Mynd: - - - Creative Commons Creative Common

Margir á vergangi

Ísabella segir að oft sé neyslan þröskuldur sem komi í veg fyrir að fíklar njóti ýmissa réttinda. Sprautufíklar eigi það margir á hættu að verða heimilislausir. 

„Oft eiga þau erfitt með að nýta sér næturathvörf og hafast þá við í bílakjöllurum eða ruslakompum. Það er mikil útskúfun og aðstöðuleysi, þau eru að reyna að komast inn hjá einhverjum og svona, eru ofboðslega utangarðs.“

Þyrfti að vera hægt að bjóða einstaklingsmiðuð úrræði

Hún segir að gott væri ef hægt væri að mæta þeim betur á einstaklingsgrundvelli. Sumir gætu vel búið í leiguhúsnæði og staðið í skilum, aðrir séu ófærir um slíkt. 

„Við ættum að hafa úrræði sem taka mið af hverjum og einum. Hvað hann vill og hvaða getu hann hefur, hvað hann hefur sýnt fram á og slíkt. Það er til dæmis afleitt að þú getir ekki fengið félagslegt húsnæði nema vera edrú í sex mánuði. Það gerir vandann rosalega erfiðan.“

Oft þurfi fólk, að lokinni meðferð, að leita aftur í næturathvörf þar sem það hafi ekki í önnur hús að venda.

„Það bara skemmir allt, í rauninni.“

Vill fjölga blautum úrræðum

Hún segir mikilvægt að fjölga svokölluðum blautum úrræðum, það er íverustöðum þar sem fíklar mega neyta vímuefna. Reykjavíkur borg státar af þremur slíkum, tveimur ætluðum körlum og einu ætluðu konum. Þá þurfi að auka aðgengi að ódýru húsnæði yfirleitt. Hún segir að úrræði skorti fyrir tvígreinda karlmenn á vergangi, þá sem bæði glíma við geðsjúkdóm og eru í harðri neyslu. Ísabella segir að oft sé fíknivanda birtingarmynd annars vanda, saga þeirra sem leiðist út í harða neyslu sé í mörgum tilfellum vörðuð erfiðum áföllum. Áfallasagan haldi svo áfram þegar í neysluna sé komið. Þetta sé erfiður og ófyrirsjáanlegur heimur. Það þurfi að horfa á fíklana sem einstaklinga, allir eigi sér ólíka sögu. 

Afglæpavæðing ekki forsenda skaðaminnkunar

Ísabella bindur vonir við að tillögur starfshóps heilbrigðisráðherra um nýja stefnumótun sem hefur skaðaminnkun að leiðarljósi verði til þess að þjónusta við þennan hóp breytist. Nú er verið að leggja lokahönd á hana. Vanþekking og fordómar bæði meðal almennings og heilbrigðisstarfsfólks sé meðal þess sem hingað til hafi staðið í vegi fyrir breyttri nálgun. Þá bendir hún á að afglæpavæðing sé engin forsenda fyrir því að aukin áhersla verði lögð á skaðaminnkun. Það sé hægt að skapa verndað umhverfi, þar sem fíklar þurfi ekki að óttast lögsókn fyrir að neyta og hafa ólögleg vímuefni í fórum sínum. 

„Það er búið að innleiða skaðaminnkandi nálgun hjá öllum Evrópusambandslöndunum, Sviss og Noregi, Kanada og Ástralíu. Við erum bara eins og Tyrkland eða eitthvað. Við erum allavega mjög langt á eftir og ekki komin langt í að hugsa svona. Það eru margir sem halda að það sé nóg að sprautunotendur fari í apótek og geti bara keypt búnað þar en þá fá þeir ekki fræðsluna og samtalið, það er ekki bein íhlutun. Þegar þau tala við mig hafa þau talað um mjög mikla fordóma þegar þau fara í apótekin, þeim finnst erfitt að fara í þau og eru þá frekar að nota aftur búnaðinn sinn og veigra sér við því að fara.“

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi