Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Eftir eitt lag 900-9905

01.02.2014 - 09:01
Mynd með færslu
 Mynd:

Greta Mjöll Samúelsdóttir - flytjandi

Kópavogsbúinn Greta Mjöll er 26 ára gamall fjölmiðlafræðingur með meistaragráðu í stafrænni fjölmiðlun frá Northeastern háskólanum í Boston. Hún er í sambúð með William Óðni Lefever og starfar hjá Latabæ.

Þegar Greta var fimm ára var lagið Draumur um Nínu í gríðarlegu uppáhaldi hjá henni, enda sjóðandi heitt á þeim tíma. Hún kunni allan textann og æfði sig mikið við spegilinn fyrir Söngkeppnina í Galtalæk. Hljómsveitin þar réði ekki við lagið, sem var þá nýútkomið, svo Greta Mjöll sögn á endanum sunnudagaskólaslagarann Daginn í dag þess í stað. Flutningurinn tók heilar 34 sekúndur og Greta átti ekki mikilli velgengni að fagna í þeirri keppni. Henni gekk heldur betur í næstu söngkeppni. Margir í Menntaskólanum í Kópavogi töldu til að byrja með að fótboltastelpan tæki þátt í keppninni í gríni, hafnaði í öðru sæti í Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2006.

Þegar kom að því að velja flytjanda lagsins Eftir eitt lag höfðu höfundarnir, Ásta og Bergrún, Gretu báðar í huga án þess að hafa rætt það sérstaklega.  Bergrún og Greta eru góðar vinkonur, og hún var  allan tímann eina söngkonan sem kom til greina.

 

Ásta Björg Björgvinsdóttir – höfundur lags

Ásta Björg er 28 ára tónmenntakennari. Hún er Bolvíkingur í hjarta og sál því þar ólst hún upp þótt hún búi nú í Reykjavík.

Ásta Björg á að baki dágóðan árafjölda í tónlistarmenntun en hún hefur einnig stundað framhaldsnám í upptökum og hljóðvinnslu. Hún er söngkona í hljómsveitinni Solar og hefur líka komið fram með eigið efni til dæmis á Melodica Festival og Off-Venue á Iceland Airwaves. Ásta Björg er greinilega fjölhæf því hún situr í Æskulýðsráði og svo keppti hún í Gettu Betur fyrir Menntaskólann á Ísafirði á sínum tíma, auk þess sem hún hefur spilað á píanó með nýsjálenskri hljómsveit á ýmsum tónlistarhátíðum þar í landi. Hún segir að bæði vinnan og frítíminn snúist um tónlist, að skapa hana, miðla, flytja og allt þar á milli.

Ásta Björg og textahöfundurinn Bergrún tóku áskorun vinkonu sinnar eftir Söngvakeppnina í fyrra og sömdu Eftir eitt lag. Þær skiluðu því inn með risavaxinn stresshnút í maganum og segjast enn mjög hissa og þakklátar fyrir að lagið var valið í keppnina.

Bergrún Íris Sævarsdóttir – höfundur texta

Bergrún, sem verður 29 ára 4. febrúar, ólst upp á Kársnesinu í Kópavogi. Hún býr með manninum sínum, Andra Ómarssyni, og fjögurra ára syni þeirra í Hafnafirði.

Bergrún er með BA-gráðu í listfræði og bókmenntafræði og lærði teikningu í Myndlistarskólanum í Reykjavík. Hún hefur meðal annars myndskreytt barnaefni og námsefni fyrir börn og starfað sem forstöðumaður félagsmiðstöðvar. Hún var líka stjórnandi þáttarins Innlit/útlit í rúmt ár. Bergrún er blaðamaður auk þess að mála barnaherbergi og fleira eftir pöntun. Bergrún og Ásta Björg, höfundur lagsins, kynntust á unglingsárunum þegar þær ferðuðust um Ísland með leikhópnum Íslandsleikhús. Þá grínuðust þær með að taka einhvern tímann þátt í Eurovision, en á þeim tíma sömdu þær til dæmis saman Verðbólgulagið. Ásta flutti lagið síðan í brúðkaupsveislu Bergrúnar í fyrrasumar, en það lýsir algerri eymd unglingsstúlknanna yfir því að eiga engan pening.

Texti lagsins Eftir eitt lag fjallar um hvað það er gaman að vera skotin í einhverjum með tilheyrandi spenningi og tilfinningaflækjum. Bergrún vonar að sem flestir þekki skemmtileg kvöld sem verða að nóttum, sem verða svo að morgnum, þar sem fólk veit að það þarf að kveðja en tímir því ekki því það er svo gjörsamlega heillað af þeim sem það er með.

 

Eftir eitt lag

Hér inni er svo notalegt
en úti dimmir fljótt

Ég ætt’að fara heim, áður
en kvöld verður að nótt

Ekki horfa svona á mig

veist ég stenst ei augun þín

Nú er tími kominn til að fara heim

Eftir eitt lag,
kannski eitt enn,
bara smástund,
sestu mér hjá
Hvíslað’ að mér,
hversvegna þú
vilt hafa mig hér

Svo þegar þú,
færir þig nær,
á tvöföldum hraða
hjarta mitt slær
Ég fiðrildi fæ

í magann á mér
og roðn’oní tær

Lífið gæti verið ljúft

ef ég lifði því með þér

Menn segja’ð best sé heima en
ég vil frekar vera hér

Ekki viss um hvað er rétt og rangt,
er alveg sam’um það

En ég veit þó vel ég ætt’að fara heim

Eftir eitt lag ...

Svo þegar þú ...

Nóttin leið og út’er orðið bjart
ég er ennþá hér

Ég gleymdi mér með þér
en nú fer ég heim

Duddururdu ...

Eftir eitt lag ...