Efnismassi á við 7 fjöll eins og Keili

10.05.2018 - 19:28
Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur við Háskóla Íslands segir að umhverfisbreytingar við jökla hafi lítið verið rannsakaðar. Náttúruvá sé yfirvofandi vegna þeirra. Magn efnisins sem er á hreyfingu við Svínafellsjökul sé á við sjö fjöll eins og Keili á Reykjanesi og getur mikil hætta stafað af því,.     

Ný sprunga er komin í ljós í vesturhlíð Svínafellsheiðar, fyrir ofan skriðjökulinn sem teygir sig niður úr Vatnajökli. Sprungan er talin tengjast annarri sem bændur í Svínafelli fundu árið 2014.  Þorsteinn segir að efnismassinn sem sé á hreyfingu þar sé miklu meiri en þeir hafi gert ráð fyrir í upphafi „og þess vegna þurfum við að bregðast við með öðrum hætti núna.“

Haldinn var fundur með íbúum á þriðjudaginn þar sem fulltrúar frá Almannavörnum, Veðurstofunni og Háskóla Íslands fóru yfir stöðu mála. Þar var mælst til þess að fólk sé ekki á óþarfa ferð á jöklinum. Þorsteinn segir að ekki hafi nákvæmlega verið rannsakað hvað er að gerast á svæðinu. „Það verður bara að viðurkennast að þessi ógn sem við erum að sjá núna er frekar ný af nálinni. Þá er ég að tala um einhverra ára gömul. Við erum að horfa upp á ofboðslegar umhverfisbreytingar í kringum jöklana við erum að horfa í rauninni upp á afjöklun.“

„Ertu að segja að þetta sé byrjunin á einhverju stærra?  Við verðum að gera ráð fyrir því já að þetta haldi áfram.“

Jöklarnir hörfi mjög hratt og lón séu að myndast fyrir framan flest alla jökulsporði. Rannsaka þurfi hver stöðugleiki hlíðanna er í kringum skriðjöklana og jökullónin.  „Ég tel að nú þurfum við verulega að fá innspýtingu frá ríkinu í þessar rannsóknir. Þetta er náttúruvá sem er við getum sagt að sé ný af nálinni.“
 
Árið 2007 féll berghlaup á Morsárjökul og er áætlað að það hafi verið þrjár og hálf til fjórar milljónir rúmmetra. Það hljóp út 1,6 kílómetra á 160 til 180 kílómetra hraða á klukkustund.

Steinsholtshlaupið féll1967. Talið er að efnið sem hljóp úr því hafi verið 15 milljónir rúmmetra og að flóðtoppurinn hafi verið þrjúþúsund rúmmetrar á sekúndu sem er eins og 8 til 10 sinnum rennsli í Þjórsá.

Það sem er á hreyfingu núna fyrir ofan Svínafellsjökul er að lágmarki 60 milljónir rúmmetra.  „Og ef við bara berum það saman við eitthvað sem við þekkjum, við þekkjum nú fjallið Keili hérna úti á Reykjanesi að þá er þetta svona 7 sinnum svoleiðis fjall. Það er efnismagnið sem er á hreyfingu eða það sem við höldum að sé á hreyfingu.“

„Þannig að þetta jú þetta mundi ég telja vera hætta mikil hætta.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi