Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Efling leggur fram gagntilboð í dag

15.02.2019 - 03:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samninganefnd Eflingar ætlar að leggja fram gagntilboð í dag við tilboði Samtaka atvinnulífsins um þriggja ára kjarasamninga að gefnum vissum forsendum. Þetta kemur frá á vef Eflingar. Í gagntilboði Eflingar er komið til móts við kauphækkunarboð SA, með því skilyrði að yfirvöld setji fram og standi við skattkerfisbreytingar.

Stjórn Eflingar og samninganefnd samþykktu einnig ályktun um skattastefnu byggða á skattatillögum Stefáns Ólafssonar og Indriða H. Þorlákssonar. Stjórnin og samninganefndin krefjast þess að aðgerðir sem lagðar eru til í skýrslunni verði innleiddar á næstu fjárlögum.

Ályktun stjórnar og samninganefndar er svohljóðandi:

„Stjórn og samninganefnd Eflingar – stéttarfélags þakka Stefáni Ólafssyni og Indriða Þorlákssyni fyrir afar vandaða vinnu við smíði skýrslunnar „Sanngjörn dreifing skattbyrðar“ sem út kom í febrúar 2019.

Ljóst er að tillögur skýrslunnar víkja frá ítrustu kröfum í kröfugerð Eflingar á hendur ríkinu og fara í sumum atriðum aðrar leiðir en þar er lagt til. Engu að síður myndu tillögurnar, kæmu þær til framkvæmda, létta skattbyrði lægstu launa um 40-60% prósent og færa skattkerfið verulega í réttlætisátt. Tillögurnar eru framkvæmanlegar á einu ári og í skýrslunni er að auki bent á fjölda leiða til að fjármagna enn frekari lækkun skattbyrði lægstu hópa.

Stjórn Eflingar – stéttarfélags styður tillögur skýrslunnar en með þeim fyrirvara að þær séu einungis fyrsta skref í áttina að því markmiði að gera lægstu laun með öllu skattfrjáls. Þess er krafist að þær aðgerðir sem skýrslan leggur til verði innleiddar strax á næstu fjárlögum, og að skattbyrði tekjulægstu hópa verði með öllu aflétt eigi síðar en árið 2021.“

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV