Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Efling fer fram á fund í dag

05.03.2020 - 09:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur farið fram á við ríkissáttasemjara að haldinn verði samningafundur í kjaradeilu félagsins við Reykjavíkurborg. Er þess óskað að fundurinn verði haldinn eigi síðar en í dag.

Var óskinni komið á framfæri símleiðis við Ástráð Haraldsson aðstoðarríkissáttasemjara í morgun að því er segir á vef Eflingar.

Þar segir að með þessu vilji Efling reyna til þrautar að þokast nær samkomulagi í deilunni.

Muni samninganefnd Eflingar krefjast efnda á loforðum borgarstjóra um grunnlaunahækkanir og leiðréttingu á launum kvennastétta.

Ótímabundið verkfall starfsmanna Eflingar hjá Reykjavíkurborg hefur staðið óslitið yfir síðan 17. febrúar.