Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Efast um viðurkenningu Palestínu

27.09.2011 - 08:23
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, efast um að skynsamlegt sé af íslenskum stjórnvöldum að viðurkenna fullveldi Palestínu.

Utanríkisráðherra segir að tillaga þess efnis verði lögð fyrir Alþingi í næstu viku.

Í ræðu Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gærkvöld kom fram að að íslenska  ríkisstjórnin væri ákveðin í að viðurkenna fullveldi Palestínu og ákveðið hefði verið að leggja fram þingsályktunartillögu strax í næstu viku.

Þetta er gert í framhaldi af viðræðum innan utanríkismálanefndar Alþingis en Össur telur breiðan stuðning við tillöguna.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa þó efasemdir um að skynsamlegt sé að grípa til þessara aðgerða núna.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfsstæðisflokksins segir að það hafi verið almenn skoðun á alþjóðlegum vettvangi að þessar deilur þyrfti að leysa með tvíhliða viðræðum. „Og ég hef líka verið þeirrar skoðunar að við Íslendingar hefðum afskaplega takmarkaða þekkingu og takmarkaða getu til þess að fara að blanda okkur inn í þær erjur sem þarna eru,“ segir Bjarni.

Bjarni tekur sem dæmi að afar fá Evrópusambandsríki séu tilbúin til þess að stíga þetta skref.  „Og Evrópusambandið hefur reyndar haft Hamas samtökin á lista yfir hryðjuverkasamtök. Þannig að ég hef mikla fyrirvara á því að það sé skynsamlegt að stíga þetta stóra skref núna,“ segir Bjarni.

Bjarni segir að málið hafi ekki verið rætt innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins en þykir líklegt að þingmenn flokksins vilji fara varlega í að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki.