Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Efast um að hún hefði kært nauðgun

08.04.2013 - 20:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Guðný Jóna Kristjánsdóttir segist efast um að hún hefði kært nauðgun, ef hún hefði vitað það sautján ára gömul hver viðbrögð bæjarbúa á Húsavík yrðu. Hún hafi verið í sárum eftir nauðgun og veit ekki hvort hún hefði haft það sem þurfti til að takast á við álagið sem fylgdi viðbrögðum bæjarbúa.

Þetta sagði Guðný Jóna í viðtali í Kastljósi. Þar var fjallað um viðbrögð í bæjarfélaginu við því að hún kærði nauðgun sem hún varð fyrir árið 1999, þá sautján ára. 113 bæjarbúar skrifuðu undir yfirlýsingu til stuðnings nauðgaranum og fjölskyldu hans. Auk þess fékk hún ljót smáskilaboð í síma og fólk kom upp að henni og sagði óviðurkvæmilega hluti við hana.

 

Ekki komin heim þegar hún kemur til Húsavíkur

Guðný flutti frá Húsavík eftir nauðgunina og þau viðbrögð sem margir bæjarbúar sýndu. Hún segist í dag ekki geta komið til Húsavíkur og litið svo á að hún sé komin heim. Þó er Húsavík staðurinn þar sem hún ólst upp til sautján ára aldurs.

Nauðgarinn játaði brot sitt fyrir lögreglu daginn eftir nauðgunina, og gekkst við því að hafa beitt hótunum og aflsmunum til að koma fram vilja sínum. Hann dró játninguna til baka fyrir dómi en sagðist þó hafa haft á tilfinningunni að hún væri ekki sátt við þetta. Breyttur framburður hans þótti ótrúverðugur gegn framburði Guðnýjar, vitnis sem kom að nauðguninni og gögnum málsins. Þetta kom þó ekki í veg fyrir að margir bæjarbúar tækju málstað nauðgarans.

 

Presturinn spurði hvort hún vildi kæra

Guðný Jóna segir að Sighvatur Karlsson, sóknarprestur á Húsavík, hafi spurt hana hvort hún væri viss um að hún vildi kæra nauðgunina. Kastljós spurði Sighvat, sem enn er sóknarprestur á Húsavík, hvað hann hefði átt við með þeim orðum sínum á þeim tíma en hann sagðist ekki geta svarað spurningunum, þar sem hann væri bundinn trúnaði. Í viðtali í DV skömmu eftir að viðbrögð bæjarbúa við nauðguninni komu í ljós sagði Sighvatur að hann hefði vonast til að hægt væri að ná sáttum aðila. Hann útskýrði ekki í samtali við Kastljós hvað hann hefði átt við með því.

 

Fyrirgaf þeim sem báðust fyrirgefningar

113 bæjarbúar rituðu nafn sitt á undirskriftalista til stuðnings nauðgaranum og fjölskyldu hans. Guðný Jóna sagðist í Kastljósi fyrst hafa frétt af honum á átjánda afmælisdeginum sínum. Þá hafi sóknarpresturinn hringt í hana og spurt hvort hún vissi af listanum og hvers vegna hann væri til kominn. 

Guðný Jóna sagðist ekki hafa skilið hvernig fólk sem ekki þekkti hana og ekki varð vitni að nauðguninni gæti gert upp við sig hvort henni hefði verið nauðgað eða ekki. Sumt af því fólki sem ritaði nafn sitt á listann hefði beðist fyrirgefningar og hún hefði fyrirgefið því.