Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ef það er á HönnunarMars, þá er það hönnun

Mynd: Rúv / Rúv

Ef það er á HönnunarMars, þá er það hönnun

02.04.2019 - 13:50

Höfundar

„Það eru ekki veggir sem greina á milli myndlistar og hönnunar heldur kvarði. Stundum finnst mér það vera ásetningurinn, frá hönnuði eða listamanni, sem ákvarðar hvorum megin verkið fellur,“ segir Lóa Hjálmtýsdóttir teiknari.

Uppskeruhátíð arkitekta og hönnuða á Íslandi er nú nýafstaðin, en HönnunarMars var haldinn í ellefta sinn um helgina. Mikil partístemning myndaðist í Reykjavík, en sífellt fleiri sækja viðburði hátíðarinnar ár hvert. Gestir Lestarklefans ræddu hátíðina og veltu fyrir sér: Hvað er það sem greinir hönnun frá list?

Atli Bollason menningarrýnir segist á dögunum hafa spurt vin sinn, sem er margverðlaunaður grafískur hönnuður, um þennan mun. „Maður heldur að hönnun sé brúkleg og myndlist sé það ekki, en það er bara grófa línan. Vinur minn sagði mér að munurinn fælist í spurningunni: Er einhver að panta þetta?
Útvarpsmaðurinn Pétur Grétarsson tekur í sama streng og segist aldrei hafa komist að niðurstöðu um málið. „Þar sem ég sat heima hjá mér í dag að drekka kaffi hugsaði ég um þetta og fór að telja kertastjakana heima hjá mér. Ég komst að því að þeir eru fimmtán talsins og hver fyrir sig listaverk, en maður pælir aldrei í því.“ Pétur telur HönnunarMars góðan hvata til að skoða betur listina í sínu nánasta umhverfi.

Lóa segist einnig hafa verið hugsi yfir listinni undanfarið og bendir þó hún hafi unnið við tónlist í 14 ár sé hún til dæmis ekki tónlistarmenntuð. „Með faglegri menntun er búið að stofnanavæða tjáningu að mörgu leyti. Ég skil auðvitað vel að ef þú ert búin að læra eitthvað í átta ár og sérð einhvern bora gat í skeið og kalla það hönnun þá setjir þú spurningarmerki við það. Það er hins vegar ríkjandi tilhneiging til að flokka allan fjárann, í stað þess að leyfa því að flæða um.“

Fjallað var um HönnunarMars í Lestarklefanum.

Tengdar fréttir

Tónlist

Mikið sem dynur á ungum manni

Menningarefni

Lestarklefinn - Hönnun, Afsakanir og Gervais

Bókmenntir

Hvers vegna glápa Reykvíkingar á mig?

Hönnun

Íslensk hönnun á erindi við heiminn