
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra kynnti utanríkismálanefnd Alþingis í gær lögfræðiálit þar sem fram kom að ríkisstjórnin væri óbundin af ályktun Alþingis frá 16. júlí 2009 um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Utanríkisráðherra sagði í fréttum RÚV í gærkvöldi að þegar væri búið að beina kröftum sem fóru í aðildarviðræðurnar í annan farveg og að engin óvissa ríkti um að hann myndi leysa samninganefnd Íslands upp.
Kristján L. Möller, Samfylkingunni, hefur óskað eftir fundi í forsætisnefnd Alþingis um málið og Árni Þór Sigurðsson, fulltrúi Vinstri grænna í utanríkismálanefnd, ætlar að fara yfir málið með lögfræðingum og segir eðlilegt að Alþingi fjalli um slit á viðræðum við ESB.
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir sennilega rétt hjá utanríkisráðherra að hann sé ekki lagalega bundinn af þingsályktuninni, en ef þinginu finnist stjórnvöld ekki framfylgja vilja sínum, geti það lýst vantrausti á ráðherra eða ríkisstjórn. Hann segir eflaust hægt að finna aðrar þingsályktanir sem ekki hefur verið farið eftir.
„Hins vegar er þetta gríðarlega stórt mál og það má segja miðað við það, vægi málsins og allt það, þá væri auðvitað eðlilegt að þingið ályktaði aftur um hver vilji þess væri. Þannig að það væri hægt að eiga um það umræðu og ólík sjónarmið um þessa mikilvægu ákvörðun kæmu fram. Þannig að ég myndi segja að miðað við hvað væri venjulegt í jafn stórum málum og hvað er eðlilegir starfshættir, þá væri náttúrulega eðlilegt að það færi fram umræða um það í þinginu og þingið ályktaði um það til að stafesta vilja sinn.“
Gunnar Helgi segist ekki vilja vera með getgátur um hvers vegna málið fari ekki til þingsins aftur. Utanríkisráðherra sagði í fréttum RÚV í gær að engin ákvörðun hafi verið tekin um að fá þingsályktun um að slíta viðræðunum við ESB.
„Þetta er ein af grundvallarákvörðunum um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Og það er auðvitað óeðlilegt að þingið fái ekki að ræða það, þannig að sjónarmið bæði þingmanna í stjórninni og stjórnarandstöðunni fái að koma fram.“