Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Eðlilegt að enginn sjúkrabíll sé á Ólafsfirði

13.09.2017 - 11:10
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Ægisson - Siglfirdingur.is
Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands segir eðlilegt að enginn sjúkrabíll sé lengur á Ólafsfirði. Verið er að koma saman viðbragðsteymi einstaklinga sem bregst við í neyðartilvikum þar til bíll kemur á staðinn frá Siglufirði eða Dalvík. Fyrrverandi sjúkraflutningamaður í bænum segir þetta geta ógnað öryggi íbúa.

Bíllinn fór í sumar

Enginn sjúkraflutningabíll hefur verið á ÓIafsfirði síðan í sumar. Einn bíll er á Siglufirði og einn á Dalvík, en sautján kílómetrar skilja bæina frá Ólafsfirði í sitthvora áttina. Íbúi á Ólafsfirði sagði í samtali við Vísi í gær að hún hafi beðið í klukkutíma eftir sjúkrabíl þegar hún hringdi vegna bakveiks föðurs síns.

Klukkutími ekki óeðlilegur biðtími

Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, segir ekkert óeðlilegt við biðtímann þar sem ekki var um að ræða neyðartilvik. Ef um alvarlegt tilvik er að ræða sé biðin mun styttri. Nú sé unnið að því að koma saman 12 manna viðbragðsteymi fólks á Ólafsfirði sem geti brugðist við í neyðartilvikum þar til bíll kemur á staðinn. Sama fyrirkomulag er í Mývatnssveit, á Kópaskeri, í Hrísey og Grímsey. Ekki sé skynsamlegt að halda úti of mörgum sjúkraflutningsvöktum.  

„Það þarf miklar kröfur um þjálfun og menntun og á þessu svæði, Dalvík til Fjallabyggðar, eru þá tvö teymi og við teljum að miðað við 4.000 manns sé það nægjanlegt,” segir Jón Helgi. 

Getur ógnað öryggi íbúa

Jón Valgeir Baldursson situr einn í minnihluta bæjarstjórnar Fjallabyggðar og er fyrrverandi sjúkraflutningamaður á Ólafsfirði. Hann segir stöðuna geta ógnað öryggi íbúa. 

„Mín reynsla sýnir mér það að viðbragðstími sjúkrabíls skiptir öllu máli. Að koma bílnum og þeim búnaði sem í honum er á sem allra stystum tíma á staðinn,” segir Jón Valgeir. Viðbragðsteymi eitt og sér í bænum sé alls ekki nóg. „Vissulega á að senda einhverja einstaklinga á námskeið til að bregðast við en þeir verða aldrei með þann búnað og þá kunnáttu sem fylgir því sem sjúkrabíll og sjúkraflutningamenn hafa,” segir hann.

Undirskriftir til að mótmæla

Rúmlega þúsund undirskriftir íbúa Tröllaskaga söfnuðust til að mótmæla því að bíllinn færi frá bænum, en þær skiluðu ekki tilætluðum árangri. Grunnkostnaður við rekstur sjúkrabíls er um 15 milljónir á ári, án útkalla, og hann er mannaður með sjö manna teymi. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV