Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ebólasmitum í Austur-Kongó fjölgar

01.06.2018 - 12:50
wo more die of Ebola in DR Congo
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tugir hafa verið greindir með hina banvænu ebólaveiru í Austur-Kongó að undanförnu. Meira en 680 manns hafa verið bólusettir gegn veirunni en mikil leit er nú gerð að öllum þeim sem hafa átt samneyti með hinum sýktu. Nú þegar hefur verið haft uppi á meira en þúsund manns sem hugsanlega gætu hafa smitast.

Alls hafa verið staðfest 37 tilfelli af ebóla og tæplega helmingur þeirra hefur látið lífið af völdum veirunnar. Grunur leikur á að í það minnsta 13 aðrir séu smitaðir af því er fram kemur í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneyti Kongó. AP greinir frá.

Samkvæmt aðgerðaráætlun sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gaf út fyrr í vikunni má búast við allt að 300 tilfellum á komandi mánuðum en sá fjöldi gæti margfaldast berist veiran í þéttbýli. Enn sem komið er hefur ebóla aðeins verið greind hjá fólki í dreifbýli.

Stofnunin hefur einnig gefið út að mikill skortur sé á sjúkraaðstöðu til að meðhöndla smitað fólk og að hugsanlega þurfi að opna slíka aðstöðu í Kinshasa, höfuðborg Austur-Kongó. Auk þess þurfi fleiri flugvélar, þyrlur og báta til að flytja sjúkragögn um landið. Reikna megi með því að kostnaðurinn við að ná tökum á ástandinu verði meiri en 56 milljónir dollara eða sem samsvarar rúmum 5,8 milljörðum íslenskra króna.

Ekki er búist við því að veiran dreifist út fyrir Austur-Kongó en það gæti breyst fjölgi smitum mikið á næstu misserum.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV