Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Eagles í kvöld á Rás 2

epa02803709 US band The Eagles perform a concert to open the festivities for the royal wedding of Prince Albert II of Monaco and his fiancee Charlene Wittstock (not pictured) at the Louis II stadium in Monaco, 30 June 2011. The free concert is offered by
 Mynd: EPA

Eagles í kvöld á Rás 2

21.01.2016 - 12:39

Höfundar

Glenn Frey, einn af stofnendum The Eagles og annar upphaflegu meðlimanna sem verið hefur í hljómsveitinni frá upphafi lést á mánudaginn. Við ætlum að minnast hans í þættinum Konsert í kvöld og heyra tónleika sem sveitin hélt í Melbourne í Ástralíu árið 2004.

Á vef hljómsveitarinnar kom fram í gær að Frey, sem var 67 ára, hafi þjáðst af liðagigt og magabólgum og verið með lungnabólgu. Hann hafi verið mikið veikur síðustu vikur og á mánudaginn hafi líkaminn hreinlega gefið sig. Glenn Frey kom með Eagles til Íslands og spilaði með sveitinni í Laugardalshöllinni árið 2011.

Glenn Frey og Don Henley stofnuðu Eagles í Los Angeles árið 1971 áramt þeim Randy Meisner og Bernie Leadon. Upphaflega voru þeir undirleikarar hjá söngkonunni Lindu Ronsstadt en fljótlega fór hljómsveitin að láta til sín taka í eigin nafni og varð hratt og örugglega ein allra vinsælasta hljómsveit Bandaríkjanna á áttunda áratugnum og ruddi brautina fyrir kantrí-popp-sveitir síðari tíma með blöndu af rokki og kántrítónlist. Áhrifa Eagles varð vart um allan heim og líka hingað heim á Frón. Brimkló hefði líkast til aldrei orðið til ef ekki hefði verið fyrir Eagles.

Glen Frey og Don Henley sömdu saman marga af helstu smellum Eagles, t.d. Best of my love, Lyin' eyes, One of these nights og Hotel California. Glenn Frey söng og spilaði á gítar með Eagles, hann er sá sem yfirleitt stóð fremstur á sviðinu á tónleikum og nú er alls óvíst að Eagles eigi nokkurn tíma eftir að stíga aftur á svið. Glenn söng aðalrödd í lögum eins og Take it Easy og Tequila Sunrise, annar aðal söngvari sveitarinnar.

Platan Hotel California sem kom út 1976 og er yfirleitt talað um sem meistaraverk sveitarinnar er ein mest selda plata sögunnar, hefur selst í meira en 16 milljónum eintaka. En flestar seldust plötur sveitarinnar vel og á blómatíma Eagles frá 1975 til 1979. Þá fóru allar plöturnar þeirra í fyrsta sæti á bandaríska vinsældalistanum – One of These Nights, Their Greatest Hits 1971-1975, Hotel California og The Long Run. Safnplatan Their Greatest Hits 1971-1975 var fyrsta plata sögunnar sem hlaut Platinum viðurkenningu fyrir sölu, en hún hefur í dag selst í næstum 30 milljónum eintaka. Það er bara Thriller Michaels Jackson sem hefur selst í stærra upplagi.

Þegar hljómsveitin hætti störfum árið 1980 var sambandið milli meðlima sveitarinnar þannig að það þótti líklegast af öllu að Eagles myndi aldrei nokkurn tíma koma saman á ný. Þegar Don Henley var spurður út í frekara samstarf sagði hann; Fyrr frýs í Helvíti en Eagles komi aftur saman. En árið 1994 eftir 14 ára hlé kom sveitin saman aftur og fór í Hell Freazes Over tónleikaferðina og eftir hana kom út samnefnd tónleikaplata.

Allar götu síðan þá hefur Eagles verið að spila og sendi frá sér eina plötu með nýju efni árið 2007, Long Road of Eden sem var fyrsta plata sveitarinnar með nýju efni í 28 ár.

Í síðustu tónleikaferð sem farin var; The history of the Eagles tour var fyrrum liðsmönnum boðið að vera með. Gítarleikarinn Bernie Leadon þáði boðið en upphaflegi bassaleikarinn Randy Meisner gat það ekki vegna heilsuleysis. Gítarleikaranum Don Felder var ekki boðið með en hann var rekinn úr sveitinni árið 2001. Ekki vegna þess að hann var ekki nógu góður, heldur vegna þess að hann vildi fá jafn mikið borgað og Don Henley og Glenn Frey.

En nóg um það – það er EAGLES í Konsert á Rás 2 í kvöld.

Tengdar fréttir

Bowie syngur í Dublin

Popptónlist

Simply Red í Róm

Popptónlist

Airwaves þristur í Konsert

Popptónlist

Eruð þið tilbúin...