Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Dýrt að vera ferðamaður á Íslandi

09.03.2017 - 09:14
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Hótelgisting var 10-32% dýrari í Reykjavík en í öðrum höfuðborgum Norðurlandanna árið 2016. Verð á veitingastöðum og verð gistiþjónustu var 44% hærra en að meðaltali í ESB 2015; verð á farþegaflutningum 52% hærra og áfengir drykkir 126% dýrari á Íslandi en að meðaltali í ESB. Þrátt fyrir að það sé dýrt að vera ferðamaður á Íslandi, er búist við að ferðamönnum fjölgi áfram á þessu ári.

Þetta kemur fram í skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustu á Íslandi, sem birt var í morgun. Þar er því spáð að ferðamönnum 2,3 milljónir ferðamanna komi til landsins á þessu ári. Ferðamönnum fjölgi um 30% frá því í fyrra, eða um 530 þúsund, þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi hækkað. Þar með hefur verðlag hér á landi, mælt í erlendum gjaldmiðlum, einnig hækkað.

Sá sem skipti breskum pundum yfir í íslenskar krónur í desember 2016, fékk 38% minna en ári áður – í desember 2015. Sá sem keypti krónur fyrir bandaríska dollara, fékk 15% færri krónur og sá sem seldi evrur, fékk 19% minna. Þrátt fyrir þetta fjölgaði breskum ferðamönnum á Íslandi um 31% á síðasta ári.

Verð fyrir vörur og þjónustu er afar hátt hér á landi, líkt og fram kemur hér að framan. Að því er fram kemur í skýrslu Íslandsbanka, var verð á afþreyingar- og menningartengda viðburði 38% hærra en að meðaltali í ESB árið 2015; föt og skór 53% dýrari; og önnur verslun 33% dýrari en að meðaltali í ríkjum ESB. Í skýrslu Íslandsbanka er t.d. bent á að Levi´s gallabuxur kosti nú 17.595 krónur á Íslandi, en um 10.000 í löndum eins og Svíþjóð, Frakklandi og Finnlandi. Buxurnar eru 39% dýrari en í því landi þar sem þær eru næst dýrastar – í Sviss. Greiningardeild Arionbanka telur að Ísland sé nú líklega orðið dýrasta land í heimi, að því er fram kom í fréttum RÚV á laugardag.