Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Dýrt að rifta samningi við Sáda

17.12.2018 - 09:28
epa05272835 Justin Trudeau, Prime Minister of Canada speaks at a press briefing on the topic of the Paris Agreement on climate change at the United Nations Headquarters in New York, New York, USA, 22 April 2016. The Paris Agreement was adopted in Paris,
 Mynd: EPA
Stjórnvöld í Kanada leita nú leiða til að rifta samningi um sölu á hergögnum til Sádi-Arabíu án þess að þurfa að greiða fyrir það bætur. Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, greindi frá þessu í gærkvöld.

Mannréttindasamtök og pólitískir andstæðingar Trudeaus hafa gagnrýnt hann fyrir að rifta ekki samningnum við Sádi-Arabíu vegna afskipta landsins af stríðinu í Jemen og morðsins á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi. 

Trudeau sagðí í sjónvarpsviðtali í gærkvöld að stjórnvöld í Kanada héldu áfram að krefjast upplýsinga frá ráðamönnum í Ríad um morðið á Khashoggi, en grunur er um að Mohammed bin Salman krónprins hafi fyrirskipað það. Sautján Sádi-Arabar hafa verið settir á svartan lista í Kanada vegna málsins. 

Trudeau sagði að samningurinn við Sádi-Arabíu hefði verið gerður í tíð fyrri stjórnar. Í honum væri kveðið á um sölu á 928 bryndrekum að verðmæti jafnvirði næstum 1.400 milljarða króna. Samningar tókust hins vegar fyrr á þessu ári um fækkun brynvagna í 742.

Að sögn fréttastofunnar AFP er þetta mesti hergagnasamningur sem Kanadamenn hafa gert til þessa. Trudeau sagði nýlega að að erfitt yrði að rifta honum án þess að greiða fyrir það bætur og talaði um að það kynni að kosta Kanadamenn meira en sem næmi 90 milljörðum króna.