Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Dýrt að hafa 200 innkaupastjóra“

10.03.2016 - 19:41
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Kastljós
„Það er dýrt að vera með 200 innkaupastjóra,“ segir forstjóri Ríkiskaupa. Sú staðreynd að innkaupum sé dreift á svo margar stofnanir, sé ríkinu einfaldlega dýrt. Það þurfi mun meiri aga og hagkvæmni. Henni verði ekki náð nema með aukinni miðstýringu á innkaupum. Vandinn felist líka því að ekkert eftirlit sé með framkvæmd innkaupa ríkisins. Þetta sagði Halldór Ó Sigurðsson, forstjóri Ríkiskaupa í Kastljósi í kvöld.

Skortur á yfirsýn, eftirliti og sóun fjármuna í opinberum innkaupum var efni Kastljóss í gærkvöldi. Þar lýstu viðmælendur fjölmörgum dæmum um slíkt. Einnig komu fram upplýsingar sem bentu í raun til þess að forstöðumönnum opinberra stofnanna væri í raun í sjálfsvald sett að fylgja innkaupalögum. Útboð á vörum og þjónustu virtust því ekki forgangsmál í mörgum tilfellum. Og það þó reynslan sýndi að þannig mætti spara háa fjármuni.

Peningar sem nýst gætu í annað

„Heildarinnkaup ríkisins eru um 150 milljarðar króna. Hjá sveitarfélögum er þetta svipað.  Hvert prósent skilar því einum og hálfum milljarði króna, hjá báðum aðilum. Þetta eru allt peningar sem nýta má í önnur og mikilvægari verkefni,“ sagði forstjóri Ríkiskaupa í Kastljósi í kvöld.

Útboð spöruðu 2 milljarða í fyrra

Sem dæmi um hvað vinnst með því að bjóða út verkefni stofnana, þá voru yfir 200 verkefni í útboðs og ráðgjafaþjónustu Ríkiskaupa, að verðmæti 20 milljarða króna. Áætlaður sparnaður var að meðaltali 9% í þessum verkefnum, eða tveir milljarðar króna.

Fljótt að telja

“Þannig að þetta skiptir gríðarlegu máli. Og það er alvega sama þó verkefnin virðist smá. Það hefur marg sýnt sig að auðveldlega má spara í smæstu verkefnum. Útboð á tryggingum, hugbúnaðarkaupum og ýmis konar þjónustu hefur marg sýnt sig að geta skilað tug milljóna króna sparnaði.“

Ráðgjöf ekki eftirlit

Ríkiskaup er ekki eftirlitsstofnun með innkaupamálum heldur þjónustustofnun þeirra sem nýta sér þjónustu hennar við útboð verkefna eða svokallaða rammasamninga. Halldór segir þó að stofnunin viti af og heyri um mál sem koma upp og snúa að því þegar stofnanir fara á svig við lög í innkaupum sínum.

„Við hins vegar fréttum af svona brotum í gegnum fjölmiðla og skýrslur Ríkisendurskoðunar. Við bregðumst þá við því með að bjóða stofnunum upp á fræðslu og þjónustu við innkaup sín," sagði hann. Umræða undanfarinna ára hefði þó haft áhrif til góðs og vakið meðvitund. Hins vegar sé langt í land.

Skánar hægt

„Það er víða pottur brotinn. Þær stofnanir sem eru að nýta sér þjónustu okkar eru hins vegar gera þetta af ábyrgð og leita tilboða og bestu verða með samkeppni á markaði,“ segir Halldór. Vandamálið sé hins vegar að það séu margar stofnanir sem kjósa að nýta sér ekki þjónustu Ríkiskaupa. Af 200 stofnunum leituðu 95 stofnanir til Ríkiskaupa á síðasta ári um einhvers lags þjónustu við innkaup.

„En það hefur samt sem áður þurft að sannfæra nokkra um að koma hingað og nýta þennan vettvang. Þar sem hægt er að treysta því að samkeppni sé látin ráða við að ná fram hagstæðustu innkaupum,“ sagði Halldór.

Spurður hvort það skyti ekki skökku við að þurfa að sannfæra forsvarsmenn innkaupamála stofnana um að fara að lögum og reglum, sem kveða á um útboðsskyldu eða þess að leitað sér tilboða eða hagstæðustu leiða, sagðist Halldór taka undir það. Fræðsla og menntun væri augljóslega líka eitthvað sem þyrfti að bæta. Eftirlit með því að lögum um opinber innkaup og tilmælum yfirvalda vantar líka.

Ekkert eftirlit

„Það er akkúrat ekkert eftirlit,“ sagði forstjóri Ríkiskaupa. Ríkisendurskoðun gerði þó öðru hverju athuganir og athugasemdir við innkaup stofnana og brot á reglum. Erlendis væri það víða þannig að Samkeppniseftirliti væri falið eftirliti með innkaupum hins opinbera. Svo væri ekki hér en það væri hins vegar leið sem hugsanlega ætti að fara hér á landi.

Seljendur þora ekki að kvarta

Eftirlit seljenda á þann hátt að þeir leita réttar síns ef stofnanir fari á svig við lög, sé víða mikilvægur hlekkur í eftirlitinu. Það væri hins vegar ekki virkt hér á landi. Seljendur sem teldi á sér brotið af hálfu opinberra stofnanna, væru einfaldlega ragir við að tilkynna um slík brot og leita réttar síns af ótta við að.

„Þeir þora ekki að koma fram en við heyrum af því þegar þeir hafa samband við okkur. Og það er oft leitt að heyra að þeir hafi ekki verið rétt meðhöndlaðir af stofnunum sem eru ekki að fara þessar réttu eða formlegu leiðir.“  

Tvöfaldur skaði skattgreiðenda

Viðurlög við því að brjóta gegn lögum um opinber innkaup felast nær eingöngu í því að ef fyrirtæki sem telur að stofnun hafi brotið á sér í útboði, kæri framkvæmd þess og fái skaðabætur. Þær bætur greiða hins vegar skattgreiðendur, ofan í það tjón sem þeir urðu jafnvel fyrir af lögbrotum í útboðinu.

Annmarkar í rammasamningum

Í Kastljósi í gær gagnrýndi Jón Björnsson, formaður starfshóps sem falið var að skoða opinber innkaup, rammasamninga Ríkiskaupa. Þeir tryggi til að mynda ekki lágt verð. Þeir tryggi birgjum sem taka þátt í þeim heldur ekki viðskipti sem hvetji til þess að þeir geti lækkað verð, vegna vissu um viðskipti við ríkið. Halldór segir að rammsamningarnir eigi að geta tryggt lægsta verð, séu þeir notaðir rétt. Hins vegar sé vitað um galla í þeim, sem þurfi að laga.

„Við vitum af annmörkum í þeim en það er líka til skoðunar að taka út ákveðna vöru eða þjónustuflokka og bjóða þá út sérstaklega. Þá yrðu gerðir samningar við takmarkaðan fjölda birgja, færri en nú er, til kannski eins eða tveggja ára. Sú leið hefur nýst Dönum vel, svo dæmi sé tekið.“

„Ríkið veit ekki hvað það kaupir“

Sú staðreynd að starfshópnum sem falið var að skoða innkaupin hafi ekki tekist að fá upplýsingar til að byggja á í meirihluta þeirra vöruflokka sem hann hugðist skoða, þar sem ríkið hafði ekki samræmdar upplýsingar um þá til staðar, vakti athygli. Leita þurfti til seljanda vörunnar og biðja hann um upplýsingar um viðskipti ríkisins við hann.

Í Kastljósi í gær sagði formaður starfshópsins það hafa komið sér algjörlega í opna skjöldu. Hann hefði hreinlega ekki trúað því að hið opinbera hefði ekki slíkar upplýsingar. Hefði í raun ekki hugmynd um hvað það væri að gera í innkaupum.

Forstjóri Ríkiskaupa sagðist taka undir það að galli fælist í þessu. Ríkiskaup hefðu sjálf þurft að fara sömu leið og starfshópurinn. Að stóla á upplýsingar frá seljendum.

„Meðan við erum ekki með innkaupakerfi þá þurfum við að treysta á þessar takmörkuðu upplýsingar úr Fjárhagsbókhaldi en það er ekki hannað til innkaupagreininga,“ sagði Halldór.