Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Dýrara að senda sms með ð, þ og æ

03.12.2012 - 20:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Það er dýrara að senda sms textaboð í farsíma ef notaðir eru íslenskir bókstafir. Ástæðan er tæknilegs eðlis og svoleiðis verður þetta áfram segir talsmaður Vodafone.

Varla er til það mannsbarn sem komið er á grunnskólaaldur sem ekki veit hvað sms er. Flest sendum við og tökum við smáskilaboðum í gegnum símana okkar á hverjum degi. Íslendingar senda yfir 200 milljónir sms-a á ári og rúmlega einn farsími er skráður að meðaltali á hvert einasta mannsbarn.

Í dag eru 20 ár síðan fyrsta sms-ið var sent. Sendandinn var ungur verkfræðingur, Neil Papworth, sem sendi vini sínum þessi einföldu skilaboð, þremur vikum á undan áætlun: "Merry Christmas".

Færri vita hins vegar, að það er dýrara að senda sms með íslenskum bókstöfum en sms með alþjóðlegum stöfum, það er að segja sms með kommum, þ-um, ð-um og æ-um. Ástæðan er tæknileg: Ef íslenskir stafir eru notaðir þarf síminn að nota stærra forrit.

„Um leið og þú í rauninni býrð til fyrsta íslenska stafinn í sms-inu þá verða allir stafirnir í umræddu sms-i háðir þessum stærri forritunarkóða, en ekki þeim minni og þess vegna verða skilaboðin svona umtalsvert stærri,“ segir Hrannar Pétursson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Vodafone. 

Þetta þýðir að fari sms með íslenskum bókstöfum yfir 70 bókstafi þá jafngildir það tveimur sms-um, eða fleirum ef þau eru mjög löng. Noti maður ekki íslenska stafi, getur eitt sms rúmað 160 stafi. Hrannar segir ekkert benda til þess að þetta breytist á næstunni. „Ef menn vilja hafa vaðið fyir neðan sig þá er best að halda sig við þessa hefðbundnu stafi þó svo að hið ástkæra tungumál okkar líði kannski örlítið fyrir það, en þannig geta menn sparað einhverjar krónur.“