Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Dýrara að gista í Reykjavík en Dubai

25.07.2018 - 09:56
Mynd með færslu
 Mynd: Natalie Ortiz - ouishare
Ferðafólk sem gistir á vegum gistiþjónustunnar Airbnb borgar að meðaltali meira fyrir nóttina í Reykjavík en í Dubai. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Bloomberg um þær borgir þar sem Airbnb-kostnaður er hæstur. Þar situr höfuðborg Íslands í þriðja sæti fyrir neðan Miami og Boston í Bandaríkjunum.

Meðalverð á gistinótt á vegum Airbnb er 194 bandaríkjadalir, eða um það bil 20.000 íslenskar krónur, nær 3000 krónum hærra en í fyrra. Miðausturlönd eru almennt hátt á lista og þar eru fimm borgir af efstu fimmtán. Engin þeirra er þó lengur fyrir ofan Reykjavík sem hækkað hefur um tvö sæti síðan 2017. 

Talsmaður Airbnb deildi um tölur við blaðamann Bloomberg og sagði að réttara væri að skoða aðeins bókuð gistipláss. Raunverð í Tel Aviv og Jerúsalem væri þá til dæmis meira en helmingi lægra en tölur Bloomberg segja til um. Í Reykjavík væru tölur Airbnb hins vegar mun nær þeim sem fram koma í skýrslunni, eða 156 bandaríkjadalir, um 16.500 krónur.