Dyr flugstjórnarklefa óbrjótanlegar

26.03.2015 - 16:42
Mynd: EPA / TT NEWS AGENCY
„Það eru ekki nema fimm sekúndur sem hurð að flugstjórnarklefanum er aflæst, en ef sá sem eftir er inni hindrar það með því að hafna því, þá er enginn aðgangur mögulegur,“ segir Ómar Ólafsson, fyrrverandi flugstjóri, um þær fregnir að Germanwings flugvélinni hafi verið brotlent viljandi.

Dyr að flugstjórnarklefum hafi verið styrktar eftir hryðjuverkaárásirnar 11 september 2001 til að koma í veg fyrir að hryðjuverkamenn geti tekið yfir stjórn vélanna. „Það er skylda að hafa þessa hurð og hún er óbrjótanleg,“ segir Ómar. Rætt var við hann í Síðdegisútvarpinu í dag. 

Saksóknari í Frakklandi sagði í dag að svo virtist sem Andreas Lubitz, aðstoðarflugmaður vélar Germanwings, sem brotlenti í frönsku Ölpunum á þriðjudag, hefði ætlað sér að brotlenda vélinni. Flugstjórinn hefði farið fram og ekki komist aftur inn. 150 manns voru í vélinni og enginn lifði af. 

Ómar segir að hægt sé að opna dyrnar að flugstjórnarklefanum utanfrá en einnig hægt að koma í veg fyrir að hún opnist með neyðarkóða. „Það eru ekki nema fimm sekúndur sem hurðin er aflæst, en ef sá sem eftir er inni hindrar það með því að hafna því, þá er enginn aðgangur mögulegur.“ Einbeittur vilji virðist hafa verið þarna að verki. 

Ekki skylda að hafa alltaf tvo flugstjóra í klefanum
Yfirmaður norska lággjaldaflugfélagið Norwegian greindi frá því síðdegis að flugfélagið ætli að krefjast þess að ávallt séu tveir í flugstjórnarklefum véla félagsins. Wow Air og Icelandair fylgdu í kjölfarið skömmu síðar.
Ómar segir að í evrópskum lögum sé ekki krafa um að tveir séu í flugstjórnarklefanum. Skýrt sé tekið fram að flugmaður geti þurft að bregða sér frá á snyrtinguna, en ekki sé gert ráð fyrir að annar komi í staðinn á meðan. 

Ómar segir ekki ólíklegt að breytingar verði gerðar. Amerískar reglur geri ráð fyrir að alltaf séu tveir í flugstjórnarklefanum. „Evrópsk lög kalla ekki á þetta en gert er ráð fyrir því í leiðbeiningarefni um tímabundna hvíld að á löngum flugum á nóttunni sé ekki óeðlilegt að menn sofni í 20 mínútur, að þá sé kallaður til annar flugmaður svo hinn sofni ekki líka.“

Nú er búið að finna flugritann og þá er hægt að sanna hvað gerðist nákvæmlega í flugstjórnarklefanum, segir Ómar Ólafsson, fyrrverandi flugstjóri sem starfaði lengi í Þýskalandi. Rætt var við hann í Síðdegisútvarpinu. 

Lufthansa hefur mjög mikla og langa reynslu í að velja flugmenn; vandar valið vel, segir Ómar. Það sé ekki auðvelt að komast þar inn og skólinn sem flugfélagið reki sé einstaklega góður. „Þannig að það ætti að koma í ljós á því langa ferli við valið og í skólanum sjálfum ef það eru brestir hjá nemendum. Þarna virðist ekki vera um það að ræða, ef það hefur þá verið sjáanlegt.“ Í hefðbundnum læknisskoðunum sé eflaust erfitt að sjá hvort eitthvað ami að. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi