Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Dynjandi verður áfangastaður árið um kring

30.08.2018 - 10:05
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Með tilkomu Dýrafjarðarganga verður fossinn Dynjandi heilsársáfangastaður. Sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir uppsafnaða þörf hafa kallað á uppbyggingu við fossinn en einnig fyrirsjáanleg fjölgun ferðamanna þegar fossinn verður áfangastaður ferðamanna árið um kring.

Stýra umferðinni við fossinn

Unnið er að miklum endurbótum á aðstöðu og aðgengi ferðamanna við fossinn Dynjanda, göngustígar bættir, útsýnispallar settir upp, bílastæði stækkuð og malbikuð og þá stendur til að bæta salernisaðstöðu. „Þetta er einn formfegursti foss landsins, umhverfið er fljótt að láta á sjá. Gróður er viðkvæmur í nágrenni við svona vatnsföll. Þannig að við erum að álagsstýra og beina umferðinni á þá staði sem þola það helst,“ segir Edda Kristín Eiríksdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun á Patreksfirði.

Fengið veglega styrki úr innviðasjóðum

Innviðasjóðir hafa gert Umhverfisstofnun kleift að ráðast í þarfa uppbyggingu en Dynjandi fékk nýverið 50 milljónir úr sértækri úthlutun og fær 60 milljónir úr innviðaáætlun til þriggja ára, landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Um 80 þúsund manns stoppi við Dynjanda á hverju sumri.

Verður heilsársáfangastaður

Með tilkomu Dýrafjarðarganga verður breyting á viðkomustaðnum Dynjanda. Þá verður ekki einungis hægt að komast hingað akandi á sumrin heldur árið um kring. Þá er talið að Vestfjarðavegur, um Arnarfjörð, taki við af Djúpvegi sem aðalvegurinn milli Reykjavíkur og Ísafjarðar en með göngunum ásamt endurbótum á vegi um Gufudalssveit og Dynjandisheiði er áætlað að leiðin verði um 60 kílómetrum styttri en um Ísafjarðardjúp. „Við þurfum að útbúa þetta svæði sem er ein af perlum Vestfjarða, einn af fjösóttustu stöðum Vestfjarða og mikill segull, við þurfum að útbúa hann þanig að við getum tekið á móti þeirri fjölgun sem að verður að öllum líkindum á næstu árum, svo já, við erum að undirbúa okkur líka,“ segir Edda Kristín.