Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Dvaldi í Leifsstöð í viku

08.06.2015 - 15:03
Mynd með færslu
 Mynd: isavia
Það væri ekki í frásögur færandi að erlend kona hafi komið inn í verslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og keypt sér kók og banana ef ekki væri fyrir það að hún gerði slíkt sjö daga í röð. Lögreglan á Suðurnesjum greindi frá þessu á vef sínum í dag.

Það fór að vekja athygli starfsfólks verslunarinnar að sama konan kom inn til að kaupa það sama, sjöunda daginn í röð. Slíkt er enda óalgengt á flugvöllum. Það gerði því lögreglu viðvart, sem hafði uppi á konunni í flugstöðinni. Kom þá í ljós að hún hafði dvalið þar í heila sjö daga og viðurkenndi hún það við yfirheyrslu. Henni var tjáð að flugstöðin væri ekki ætluð til búsetu og að hún hefði dvalið of lengi á Schengen-svæðinu, að því er fram kemur í færslu lögreglunnar.

Konan framvísaði bandarísku vegabréfi en vildi þó ekki snúa aftur til Bandaríkjanna. Þess í stað bókaði hún miða til Edinborgar og hélt þangað í gærkvöld.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV