Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Duterte myrti þrjá sem borgarstjóri

22.12.2016 - 08:58
epa05685140 A handout photo made available by the Presidential Photographers Division (PPD) on 22 December 2016 shows Filipino President Rodrigo Duterte (C), his common-law wife Honeylet Avancena (R) and their daughter Veronica (L) posing for a photograph
 Mynd: EPA - PPD
Mannréttindasamtök á Filipseyjum segjast ætla að rannsaka mál Rodrigo Duterte, forseta Filipseyja, eftir að hann greindi frá því að hann hefði með eigin hendi myrt þrjá meinta glæpamenn þegar hann var borgarstjóri í borginni Davao.

Mannréttindastjóri Sameinuðu Þjóðanna hvatti í gær til morðrannsóknar á forsetanum. 5.300 manns að minnsta kosti hafa verið myrtir á Filipseyjum í herferð Duterte gegn fíkniefnasölum og fíkniefnaneytendum frá því í júní í sumar. Þar af hefur lögreglan tekið af lífi án dóms og laga 2.124 að hvatningu forsetans.

Mannréttindasamtök hafa lengi lýst furðu og óhug vegna yfirlýsinga Duterte. Sér í lagi þegar hann hefur beint spjótum sínum að þeim en hann hefur talað fyrir því að ráðast gegn baráttufólki fyrir mannréttindum fyrir að hindra baráttuna gegn fíkniefnum og skipulagði glæpastarfsemi í landinu. 

Duterte greindi frá því í ræðu um miðjan mánuðinn að hann hefði sjálfur drepið grunaða glæpamenn þegar hann gegndi embætti borgarstjóra í Davao. Það hafi hann gert til að sýna lögreglumönnum fordæmi. Þúsundir hafa verið teknar af lífi án dóms og laga frá því að Duterte tók við forsetaembættinu í júní.