Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Dularfullur refadauði á Hornströndum

15.03.2015 - 13:23
Mynd með færslu
 Mynd: Phil Garcia - Náttúrufræðistofnun Íslands
Mynd með færslu
 Mynd: Patty Swan - Náttúrufræðistofnun Íslands
Mynd með færslu
 Mynd: Ester Rut Unnsteinsdóttir - Náttúrufræðistofnun Íslands
Slæmt tíðarfar og eitruð fæða eru mögulegar skýringar á hruni refastofnsins á norðaverðum Hornströndum síðastliðið sumar, segir spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun. Mörg dýr fundust dauð og margir yrðlingar drápust.

 

Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur hefur farið á hverju sumri síðan 1998 ásamt samstarfsmönnum yfir friðlandið á Hornströndum til að kanna ábúð og afkomu refa. Friðlandið er nyrsti hluti Vestfjarðakjálkans og afmarkast af Hrafnsfirði í vestri og Furufirði í austri. Í fyrra fundust 10 dauð dýr og í júní reyndust fáar læður vera með lifandi yrðlinga. Ester segir að á svæðinu séu yfirleitt sex pör með yrðlinga en aðeins þrjú pör hafi komið upp yrðlingum.  „Eitt parið missti helminginn af  sínum yrðlingum og restin var horuð og virtust vera vannærð dýr". 

Ester fékk síðan tilkynningar um fleiri refahræ, eitt til tvö í hverjum firði eða vík. Hún segir að þarna hafi orðið staðbundið og tímabundið hrun á stofninum. 

Ennþá hafa ekki fundist skýring á hruninu. Veðurfar gæti hafa haft áhrif því þó svo refurinn þoli heimskautaveturinn vel getur rysjótt tíð hér á landi, rigning og snjór til skiptis, haft slæm áhrif. Erfiðara er fyrir þá að komast í æti sem þeir hafa grafið niður  og varp fugla misfórst líka. Auk þess eru líkur á því að fæðan sem þeir ná í sé ekki góð. „Mig grunar að fæðan þarna séu mjög menguð. Ég veit ekki hvaða áhrif það hefur á dýrin en við höfum tekið þátt í rannsókn þar sem var verið að mæla eiturefni. Hún er reyndar ekki búin.  Það hefur fundist talsvert mikið af kvikasilfri til dæmis í tófum á Íslandi sérstaklega þeim sem búa við ströndina og éta sjófugl og sjórekinn sel og hval. Mig grunar að þetta geti skipt einhverju máli".

Haldið verður áfram að rannsaka staðbundna hrun refastofnsins í friðlandinu næsta sumar

 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV