Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Drykkjumenningin hefur breyst

01.03.2014 - 13:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Í dag eru 25 ár síðan leyft var að selja bjór hér á landi. Mikil andstaða var við bjórinn hjá dreifbýlisöflunum og verkalýðsflokkunum, segir félagsfræðiprófessor sem skrifaði meistararitgerð sína um bannið.

Neysla áfengis hafi aukist á þessum aldarfjórðungi. Drykkjumenningin hafi þó breyst þó enn eimi eftir af fylliríiskúltúrnum. 

„Margir töldu að bjórinn væri svona eins og úlfur í sauðargæru að menn litu ekki á þetta sem áfengi. Menn höfðu áhyggjur af því að bjórinn yrði hluti af venjulegu lífi Íslendinga og svo höfðu menn líka miklar áhyggjur af því að áfengisneysla á Íslandi myndi aukast með tilkomu bjórsins að hann myndi í raun og veru bætast ofan á aðra neyslu áfengis í samfélaginu,“ segir Helgi Gunnlaugsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Mikil andstaða var á Alþingi við af aflétta bjórbanni.  

„Þessi tvö þjóðfélagsöfl dreifbýlisöflin og verkalýðsflokkarnir þeir raunverulega mynduðu svona meginstuðninginn bak við bjórbannið alla tuttugustu öldina á meðan á því stóð. Þau öfl sem voru hlynnt því að afnema bannið þau koma meira svona úr þéttbýli svona meira svona borgaralega þenkjandi öfl.“

Heildarneysla áfengis hefur aukist eftir tilkomu bjórsins, segir Helgi, nú séu mun fleiri vínbúðir og margfalt fleiri barir, þannig að ýmislegt skýri meiri drykkju nú en áður. Íslendingar drekki þó minna en flestar aðrar Evrópuþjóðir. 

„Það má segja svona að drykkjumenningin hafi breyst. Færst frá svona sterkvínskúltúr yfir á vægari áfengistegundir en við drekkum oftar og það eimir ennþá eftir af sterkvínskúltúrnum að það er fylliríismenning sem ríkir hér í ríkara mæli en við sjáum víðast annars staðar í Evrópu. “

Á níunda áratugnum þegar Helgi var í námi í Bandaríkjunum hvöttu kennarar hans þar að skrifa meistararitgerð sína um bjórbannið:

„Það sem mönnum fannst sérstakt við íslenska bjórbannið var að þarna höfðum við samfélag, vestrænt ríki, nútímalegt ríki, sem bannar veikasta stig áfengis en leyfir jafnframt sterka vínið.“