Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Druslugangan á morgun: „Við munum ekki þegja“

27.07.2018 - 22:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Druslugangan verður gengin í áttunda sinn hér á landi á morgun til að sýna samstöðu með þolendum kynferðisofbeldis. „Hún er gengin til að sýna samfélaginu að við munu ekki þegja. Við munum alltaf standa upp gegn nauðgunarmenningu,“ segir Helga Lind Mar, einn af skipuleggjendum göngunnar. Gengið er frá Hallgrímskirkju klukkan tvö seinni part dags.

Upphefjum ofbeldismenn en trúum ekki þolendum

„Nauðgunarmenning er þegar við sem samfélag lítum fram hjá alls konar brotum,“ útskýrir Helga. „Við þöggum brot niður með kerfisbundnum hætti og upphefjum ofbeldismenn þegar við lítum fram hjá brotum þeirra vegna þess að þeir búa til einhverja list. Á sama tíma gefum við þolendum ekki nógu mikið pláss og trúum þeim ekki.“

Innleiða samtvinnaðan femínisma

Gangan í ár snýst ekki síst um það að innleiða hugmyndafræði samtvinnaðs femínisma, eða „intersectional feminism,“ segir Helga. „Sem hluti af því höfum við verið með fræðslukvöld í vikunni þar sem ólíkum hópum samfélagsins er gefin rödd. Á þriðjudaginn hafi Tabú, samtök fatlaðra kvenna, tekið þátt í fræðslukvöldi og í kvöld var konum af erlendum uppruna boðið að tala á slíku kvöldi. Þá hefur Stígamótum og Bjarkahlíð verið boðið að taka þátt í fræðslukvöldum Druslugöngunnar.

Kærðu sama lögreglumann

Undirbúningur göngunnar hefst að hádegi með sölu á hvers kyns drusluvarningi, en ágóði af sölunni rennur til næstu göngu. Gengið er niður á Austurvöll þar sem þær Helga Elín Herleifsdóttir og Kiana Sif Limehouse taka fyrstar til máls en þær eiga það sammerkt að hafa mátt þola kynferðisofbeldi. Þær kærðu sama lögreglumann fyrir ofbeldið en hann starfar enn innan lögreglunnar, segir Helga.

Mynd með færslu
 Mynd: Druslugangan
Helga Elín Herleifsdóttir og Kiana Sif Limehouse taka til máls á morgun.

„Starfsstétt sem við þurfum að geta treyst á“

Skipuleggjendur Druslugöngunnar hvetja lögreglumenn ekki síst til að mæta í gönguna á morgun. Sérstakt boðskort, sem stílað var á lögreglumenn, var útbúið og hengt upp í lögreglustöðvunum við Hverfisgötu og Árbæ, segir Helga. „Þið tilheyrið starfsstétt sem við þurfum að geta treyst á,“ segir meðal annars í boðskortinu.

GDRN, Sykur og Dóra Júlía halda uppi stuðinu

Þá mun hópur ungra kvenna frá Stígamótum ávarpa þátttakendur göngunnar. Ræðuhöldin eru liður í lokaverkefni þeirra í framhaldsmeðferð hjá Stígamótum. Þar á eftir stígur María Rut Kristinnsdóttir í pontu en hún er fyrrum talskona Druslugöngunnar. Helga segir að hún hafi síðar farið í vinnu hjá dómsmálaráðuneytinu þar sem hún vann meðal annars að aðgerðaráætlun um úrbætur í réttarvörslukerfinu.

Tónlistin tekur síðan við af ræðuhöldum en listamennirnir GDRN, Sykur og Dóra Júlía munu halda uppi stuðinu fram eftir degi.

Mynd með færslu
 Mynd: Druslugangan
Helga Lind Mar er einn af skipuleggjendum Druslugöngunnar