Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Drulluerfitt“ að vera með nauman meirihluta

06.01.2017 - 09:27
Þingmenn ganga til Dómkirkju við þingsetningu 6. desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir það verða merkilegt ef Björt framtíð og Viðreisn fá fimm ráðherrastóla í stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Hann vill þó ekki segja að það sé kergja innan þingflokksins vegna þessa. „En mönnum finnst það auðvitað sérstakt.“ Hann hefur áhyggjur af því hversu nauman meirihluta flokkarnir þrír hefðu á Alþingi. Þingstörfin myndu að mestu leyti lenda á þingflokki Sjálfstæðisflokksins „og það er bara drulluerfitt“.

Brynjar var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun ásamt Eddu Hermannsdóttur, upplýsingafulltrúa Íslandsbanka, þar sem farið var yfir helstu fréttir vikunnar. Brynjar sagði að sér sýndist, miðað við fréttir, að þetta væri bara komið. „Menn segja að öll stóru málinu séu afgreidd og þá ætti þetta bara að vera handavinna eftir.“

Fram kom í Fréttablaðinu í morgun að rætt hefði verið um að skipta upp bæði atvinnuvegaráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu og að Viðreisn hefði gert það að ófrávíkjanlegri kröfu að það fengi fjármálaráðuneytið. Blaðið sagðist einnig hafa heimildir fyrir því að Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sækist ekki eftir neinu sérstöku ráðherraembætti.

Í DV var eftir Hönnu Katrínu Friðriksson, þingflokksformanni Viðreisnar, að hún vildi fara að sjá eitthvað handfast um viðræðurnar.  Það væri gott að allt gengi vel. „Ég er hins vegar orðinn óþreyjufull að sjá allavega drög að útkomu til að geta tekið efnislega afstöðu til hugsanlegs stjórnarsáttmála.“

Brynjar sagði að sér þætti merkilegt ef Björt framtíð og Viðreisn fengju fimm ráðherrastóla líkt og Sjálfstæðisflokkurinn. „Þetta eru þeir flokkar sem hafa barist fyrir jöfnun atkvæða en það gildir greinilega ekki um þetta.“ Þingmaðurinn vildi þó ekki ganga svo langt að segja að það væri kergja innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins vegna þessa en mönnum þætti þetta auðvitað sérstakt.

Brynjar var einnig spurður út í útspil Framsóknar og VG en flokkarnir tveir hafa talað nokkuð opinskátt um að þeir séu í óformlegum viðræðum. Þingmaðurinn sagði að sér þætti þetta svolítið seint fram komið.  Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefði strax lýst yfir vilja til samstarfs við VG en því hefði verið hafnað . „Bakland [VG] vildi það ekki þannig að það var ekkert um annað að ræða en að fara í þessar viðræður og klára þær.“

Brynjar hefur þó ákveðnar áhyggjur af þeim meirihluta sem flokkarnir hefðu á þingi en ríkisstjórnin hefði einungis eins manns meirihluta eða 32 þingmenn. „Það er erfitt að vera í þinginu með eins manns meirihluta og þegar helmingur af hinum tveimur flokkunum eru ráðherrar þá eru engir þingflokkar og allt lendir á þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Og það er bara drulluerfitt.“

Edda spurði Brynjar þá hvort það væri meiri áhugi innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins á samstarfi við VG og Framsókn en samstarfinu við Viðreisn og Bjarta framtíð. „Ég hef enga tölfræði en menn vita alveg hvað það getur verið erfitt að vera með eins manns meirihluta.“ 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV