Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Dróttkvæðin margslungin smíð úr orðum

Roberta Frank, prófessor í ensku við Yale, í Viðtalinu á RÚV
 Mynd: RÚV

Dróttkvæðin margslungin smíð úr orðum

30.03.2015 - 16:02

Höfundar

Í nóvember 2014 var haldið þing í tilefni af því að 800 ár voru liðin frá fæðingu Sturlu Þórðarsonar. Þess vegna streymdu í Norræna húsið fræðimenn frá ýmsum löndum og ræddu verk hans.

Sturla Þórðarson var mikilvirkur höfðingi, bróðursonur Snorra Sturlusonar og höfundur Hákonarsögu Hákonarsonar, Íslendingasögu og einnar gerðar Landnámabókar.

Roberta Frank, sem ber hinn virðulega titil: „Marie Borroff Professor of English, Yale University“ var ein af þeim sem talaði á þinginu, en hún hefur sent frá sér rit og um 60 greinar um miðaldabókmenntir.

Viðtalið við Robertu Frank, snerist þó að mestu um hvernig má njóta kvæða sem ort eru undir dróttkvæðum hætti. Þessi kvæðagerð var íslendingum töm frá upphafi byggðar og lifði hérlendis löngu eftir að menn misstu tökin á slíkum skáldskap í Noregi. Frank hefur mikið dálæti á Íslendingum sem geta mælt slík kvæði af munni fram og dáist að hljómfallinu. Enda gefst áhorfendum kostur á að heyra og sjá einn slíkann í þættinum, þar sem Erlingur Gíslason leikari, bæði les og fer með dróttkvæði, sem hann lærði í æsku.

Roberta segir að þó hljómfallið sé heillandi séu það ekki síður kenningarnar og heitin sem gera skáldskaparmál dróttkvæða gífurlega spennandi. Skáldin hafa sennilega ekki ætlast til að allir skildu dróttkvæði án þess að hafa fyrir því að velta myndmálinu fyrir sér, brjóta niður kenningar og rifja upp norræna goðafræði til að fá fullan skilning á kvæðinu. Roberta Frank lítur þó ekki eingöngu á kvæðin sem gátur heldur margslungna smíð úr orðum, sem staðið getur um eilífð líkt og vel gerð steinbrú.

Roberta Frank er gestur Viðtalsins á RÚV, mánudagskvöldið 30. mars kl. 22.20.