Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Drónamyndir úr Hítardal

07.07.2018 - 14:43
Mynd: Erla Dögg Ármannsdóttir / Erla Dögg Ármannsdóttir
Gríðarstór skriða féll úr Fagraskógarfjalli í Hítardal á Mýrum snemma í morgun og þvert yfir Hítará þannig að áin stíflaðist. Lón hefur myndast ofan við stífluna eins og sjá má á drónamyndunum sem fylgja með fréttinni. Vinstra megin á myndinni má greina veg þar sem eru tveir bílar sem gefa ágætis samanburð um stærð skriðunnar.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur, SVFR, skrifar um skriðuna á vefsíðu sína og segir ekki kunnugt eins og er hvaða áhrif hún eigi eftir að hafa á ána, sem er landsþekkt laxveiðiá. Félagið sé í samráði við landeigendur og Hafrannsóknarstofnun að vinna að viðbragðsáætlun. 

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg hafa björgunarsveitir á Vesturlandi verið kallaðar út vegna skriðunnar. Viðbragðsaðilar séu að meta ástandið á svæðinu og hópar björgunarsveitafólks á leiðinni á vettvang til að tryggja öryggi og aðstoða við að loka vegum. Einnig voru boðaðir drónahópar til þess að hægt sé að ná betri yfirsýn yfir svæðið, segir í tilkynningu.