Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Dreymdi stóra drauma um sjálfstæða þjóð

Mynd: RÚV / RÚV

Dreymdi stóra drauma um sjálfstæða þjóð

03.03.2018 - 10:00

Höfundar

„Mér finnst að ætti að vera stytta af manninum í Aðalstræti þar sem hann hallar sér upp að vegg, stytta sem nemendur Háskólans geta klætt, gefið honum trefla og sokka og hatta, þannnig að hann verður eins og tákn hugsjóna unga fólksins,“ segir Terry Gunnell prófessor um Sigurð Guðmundsson málara.

Sigurð Guðmundsson málara dreymdi stóra drauma um sjálfstæða þjóð með sjálfstæða menningu. Hann hafði plön um þjóðleikhús, þjóðminjasafn, sundlaugar, útivistarsvæði, nýtt hús fyrir Alþingi, þjóðlega búninga, vegakerfi, styttu af Ingólfi. Lítið af þessu rættist á tíma Sigurðar, hann andaðist snauður og vanmetinn í Reykjavík 1874, aðeins fjörutíu og eins árs gamall.

Um Sigurð er fjallað í bókinni Málarinn og menningarsköpun, en ritstjórar hennar eru Terry og Karl Aspelund.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði, og annar ritstjóra bókarinnar Málarinn og menningarsköpun.

Viðtalið við Terry fór fram við gröf Sigurðar í gamla kirkjugarðinum í Reykjavík. „Hér er máður legsteinn sem átti að vera myndastytta, en endar með því að ekki er hægt að lesa það sem stendur á steininum og það er meira að segja stafað vitlaust.“

Terry segir að Sigurður hafi oft verið kallaður Siggi séní. „Ef við hugsum um húsið þar sem hann bjó í Aðalstræti, þar er hann og Jón Árnason sem er að taka saman þjóðsögurnar, þar er Matthías að semja Guð vors lands á sama tíma, þetta er svona Crosby, Stills & Nash íslenskrar menningar í sama húsi troðfullu af draumum um hvernig Ísland eigi að vera.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Trúgjarnasti maður Íslands hitti þann lygnasta

Bókmenntir

„Ég hélt að þessi saga yrði ekki dramatísk“

Bókmenntir

Skáld eru skilyrt til að yrkja um áföll

Bókmenntir

„Hún er afkvæmi míns vanskapaða huga“