Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Dreifa umferðinni um landið

25.09.2016 - 20:01
Endurbættur vegur um Uxahryggi er nauðsynlegur til að dreifa umferðinni betur og létta álaginu af þjóðvegi eitt, segir umdæmisstjóri Vegagerðarinnar. Áætlað er að vegagerð verði lokið eftir fimm til sex ár. 

Þessa dagana er verið að leggja bundið slitlag á stóran hluta af Uxahryggjaleið, eða héðan frá Meyjarsæti að vegamótum Kaldadalsvegar. Þessi leið tengir saman Suðurland og Vesturland og fólk í ferðaþjónustu í þessum landshlutum hefur lengi kallað eftir þessum samgöngubótum.

Sá kafli sem verið er að leggja bundnu slitlagi er um 20 kílómetra langur og stærstur hluti hans var byggður upp fyrir nokkrum árum. Þá er einnig verið að leggja bundið slitlag á nokkra kílómetra í sunnanverðum Lundarreykjadal, sem er hluti af Uxahryggjaleið. 

„Síðan höfum við hug á að halda áfram með veginn uppi á Uxahryggjunum sjálfum. Líklega verður þar fyrir valinu ný veglína sem er ekki eins há og núverandi vegur og tengja sem sagt saman Lundarreykjadalsveg frá Þverfelli yfir á Kaldadalsveg við litla Brunnavatn,“ segir Ingvi Árnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar. 
 
Hann segir breytinguna hafa mikla þýðingu. „Þetta bara gjörbreytir öllu, sérstaklega hvað varðar ferðamenn. Það verður stutt að fara milli áhugaverðra áfangastaða í uppsveitum Borgarfjarðar og uppsveitum Suðurlands og eiginlega alveg nauðsynlegt að koma þessu á til þess að létta á og dreifa umferðinni um landið,“ segir Ingvi.

Miðað er við að vegagerð á Uxahryggjaleið ljúki árið 2022. 
 

 

gislie's picture
Gísli Einarsson
Hrefna Rós Matthíasdóttir
Fréttastofa RÚV