Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Dregur úr gosóróa við Holuhraun

03.09.2014 - 21:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Dregið hefur úr gosóróa við Holuhraun síðasta klukkutímann samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Óróinn, sem hófst eftir hádegi í dag, er enn til staðar. Lára Ómarsdóttir, sem flaug yfir svæðið í dag, segir mikið af sprungum í jörðinni og sums staðar sé verulega mikið fall á jörðinni.

Jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni segir að enn sé óljóst hver uppruni þessa óróa er, en allt bendi til þess að hann komi úr berggrunninum undir norðanverðum Dyngjujökli eða nálægt jaðri jökulsins.

Engin merki hafa sést um gos undir jökli, en möguleg skýring á óróanum er að grunnvatn hafi komist í snertingu við kviku í gegnum djúpar sprungur í berginu. Nokkuð hefur dregið úr skjálftavirkni á svæðinu miðað við síðustu daga; frá miðnætti hafa nú mælst um 400 skjálftar, flestir í tengslum við kvikuganginn sem liggur undir Dyngjujökli.

Sprungur norðan Dyngjujökuls og í jöklinum sjálfum sýna að þar hefur myndast sigdalur, hálfur til einn kílómetri á breidd og nokkrir metrar að dýpt. Sigdalurinn er í það minnsta 5-7 kílómetra langur.

Þetta kom í ljós þegar vísindamenn Jarðvísindastofnunar rýndu í radarmyndir sem teknar voru úr lofti í dag. Myndun sigdalsins bendir til þess að kvikugangurinn sé skammt undir yfirborði jarðar og að afar vel þurfi að fylgjast með framvindu mála. Lára Ómarsdóttir fréttamaður og Ómar Ragnarsson flugu yfir gosstöðvarnar nú undir kvöld. „þetta er svona eins og landið hafi bara aðeins pompað niður, hafi fallið niður. Og það er rosa mikið af sprungum í jörðinni. Þetta nær frá Dyngjujökli og að gossprungunni sjálfri. Og sums staðar er þetta verulega mikið fall á jörðinni. Gosið sjálft er enn í fullu fjöri.“

Lára segir að þetta séu margar sprungur á örugglega yfir kílómetra kafla frá vestustu sprungunni að þeirri austustu og á köflum sé þetta mikið sig „Og alveg ótrulegt að sjá þetta.“

Á mánudag var nýja hraunbreiðan 4,2 ferkílómetrar en þegar vísindamenn flugu yfir í dag reyndist hún mun stærri eða 9,1 ferkólómetri. Vísinda- og fréttamenn þurftu að yfirgefa lokaða svæðið norðan Vatnajökuls í dag þegar órói jókst á skjálftamælum við Dyngjujökul. Meiri kvika streymir inn í kvikuganginn en kemst út úr honum og vísindamenn hafa áhyggjur af því að gossprungan rifni upp í jökul.