Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Dregur fram hinsegin sögu í Þjóðminjasafninu

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin

Dregur fram hinsegin sögu í Þjóðminjasafninu

10.08.2018 - 17:06

Höfundar

Ásta Kristín Benediktsdóttir, íslenskufræðingur, er ein af þeim sem unnið hafa við að útbúa nýja leiðsögn í gegnum grunnsýningu Þjóðminjasafnsins, Þjóð verður til, sem dregur fram hinsegin sögu Íslendinga.

Ásta segir að hugmyndin að Regnbogaþræðinum, nýrrar leiðsagnar í gegnum Þjóðminjasafnið, hafi kviknað fyrir um það bil tveimur árum þegar Ynda Gestsson bar fram erindi á aðalfundi Samtakanna 78. Þar benti hann á að það væri ekkert á Þjóðminjasafni Íslands sem vísaði í hinsegin sögu.

Þjóðminjasafnið sýndi vilja til að bæta úr þessu og skoða leiðir, ásamt Samtökunum 78, til þess að varpa einhvers konar ljósi á hinsegin sögu. Ásta segir að það hafi verið að mörgu að huga. „Það vantar sjónarhornið, sýningargripi, upplýsingar. Það er auðvitað svo margt í hinsegin sögu sem er óritað. Það má segja að það sé ein stór þögn um þetta svið,“ segir hún.

Nýtt sjónarhorn í stað nýrrar sýningu

„Á einhverjum tímapunkti vorum við að velta fyrir okkur sérstakri hinsegin sýningu, sem þýddi þá að við þyrftum að safna sýningargripum og þess háttar. Lendingin var hins vegar sú að vinna úr því sem við höfum nú þegar, sem er þessi stóra grunnsýning, Þjóð verður til, og leiða gesti í gegnum hana frá hinsegin sjónarhorni. Velta upp spurningum en líka koma með staðreyndir sem eru ekki á sýningunni, um hinsegin sögu og fá fólk til að horfa gagnrýnum augum á þessar hugmyndir um þjóð, íslensku þjóðina og sögu hennar sem við höfum vanist því að fá.“

Ásta segir að í leiðsögninni sé reynt að draga fram upplýsingar úr rannsóknum sem gerðar hafa verið á hinsegin málefnum, en aðaláherslan sé lögð á að spyrja spurninga, staldra við og lesa í það sem ekki er á safninu.

Regnboginn verður valmöguleiki í hljóðleiðsögn

Þjóðminjasafnið býður upp á hljóðleiðsagnir í gegnum sýninguna á nokkrum tungumálum og Regnbogaþráðurinn verður ein af þeim leiðsögnum sem í boði verða. Þannig er hún öllum aðgengileg án þess að fólk þurfi að bera sig sérstaklega eftir henni.

Ásta vill að almenningur þjálfist í að horfa gagnrýnum augum á stórar sögusýningar. „Svona sýningar eins og Þjóð verður til er mjög stór og umfangsmikil sýning og hún kemur á framfæri einhverjum stórum sannleika. Okkur langar að sem flestir þjálfist í því, ekki bara hér heldur alls staðar, að nálgast svona sýningar á þeim forsendum að þær eru aldrei allur sannleikurinn, það er alltaf eitthvað sem er sagt og ekki sett fram.“