Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Draumurinn um Brasilíu úti

Mynd með færslu
 Mynd:

Draumurinn um Brasilíu úti

19.11.2013 - 21:04
Íslenska karlalandsliðinu tókst ekki að tryggja sér sæti á lokamóti HM í Brasilíu eftir 2-0 tap gegn Króötum í Zagreb í kvöld. Íslenska liðinu tókst aldrei að komast í takt við leikinn og þrátt fyrir að vera manni fleiri allan seinni hálfleikinn tókst því ekki að skapa sér afgerandi færi.

Frammistaða Íslands í leiknum í kvöld olli nokkrum vonbrigðum.  0-0 jafnteflið á Laugardalsvelli gaf leikmönnum og stuðningsmönnum von um að komast á HM en segja má að þeir hafi lent á vegg í Zagreb. Króatarnir sýndu hvers þeir eru megnugir eftir magra tíð að undanförnu.

Bæði lið gerðu tvær breytingar á liðum sínum frá fyrri leiknum á föstudag. Eiður Smári Guðjohnsen og Birkir Már Sævarsson komu inn í lið Íslendinga fyrir Kolbein Sigþórsson og Ólaf Inga Skúlason.

Króatar byrjuðu fyrri hálfleik af miklum krafti og á 28 mínútu fékk liðið sína sjöttu hornspyrnu. Íslenska liðið náði ekki að koma boltanum í burtu, hann barst fyrir markið og þar var Mario Mandzukic, framherji liðsins, á réttum stað og kom boltanum í netið. 

Mandzukic, sem leikur með Bayern München í Þýskalandi, átti eftir að koma meira við sögu í leiknum því tíu mínútum síðar fékk hann að líta rauða spjaldið fyrir fólskulegt brot á Jóhanni Berg Guðmundssyni. 

Þann stutta tíma sem eftir lifði hálfleiks náði íslenska liðið að sýna klærnar án þess að skapa sér afgerandi marktækifæri.

Seinni hálfleikur gat ekki byrjað verr. Á 47. mínútu átti Dario Srna, fyrirliði Króata, skot á markið sem Hannes Þór náði ekki að verja - Króatar tveimur mörkum yfir.

Íslendingar reyndu af veikum mætti að minnka munninn en án árangurs - Króatar voru einu númeri of stórir í kvöld, áttu nokkrar hættulegar skyndisóknir og með Luka Modric - miðjumann Real Madrid í broddi fylkingar -  sigldu þeir farseðlinum tiil Brasilíu í örugga höfn.