Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Draumalaug Finnboga Péturssonar í Hafnarhúsinu

Mynd: RÚV / RÚV

Draumalaug Finnboga Péturssonar í Hafnarhúsinu

05.06.2019 - 14:05

Höfundar

Yfir tíu þúsund lítrar af vatni fylla A-sal Hafnarhússins, á sýningunni Rið sem opnuð var á dögunum. Þar hefur Finnbogi Pétursson komið fyrir vatnslaug og notar hljóðbylgjur til að mynda gárur á yfirborði hennar.

„Þetta er ein af þessum laugum sem ég hef verið að gera síðan 1991,“ segir Finnbogi og vísar meðal annars til verka í Orkuveitur Reykjavíkur og Háskólanum í Reykjavík. „Ég hugsa kannski að ég sé að loka þessu dóti. Flest af þessum verkum eru gólfverk, laugar sem sitja á gólfinu en þetta er flóknara núna því mig hefur alltaf dreymt að taka svona laug og hækka hana upp; þannig að þú standir við laugina eins og þú standir við borð. Nálgun mín á hljóð í verkum mínum hefur verið að gera hljóð sýnilegt og þetta er kannski mest „basic“ leiðin til að gera það.“

Sýning Finnboga Péturssonar í Hafnarhúsinu og á Kirkjuþingi.
 Mynd: RÚV

Finnbogi kveðst vera að leika sér að mörkum tveggja heima. „Tíðnirnar í þessum laugum, þessar lágtíðnir, eru meira eða minna alltaf á þessu sviði þar sem þú ert að fara á milli þessara tveggja heima sem við lifum í. Heimurinn sem við erum í núna og hins vegar draumaheimurinn.“ Heilinn vinni á ákveðnuð tíðnisviðum, dagsdaglega sé hann á bilinu 15 til 30 rið en þegar við leggjumst til svefns lækki tíðnin fyrst niður í um 10 rið og alveg niður í 6. „Þá förum við að fara á milli þessara heima. Í þessu verki eru þetta um þrjú rið, þá ertu komin yfir draumastandið og kominn yfir kreatívu deildina í heilastarfseminni.“

Sýning Finnboga Péturssonar í Hafnarhúsinu og á Kirkjuþingi.
 Mynd: RÚV

Þetta er ekki eina verkið sem Finnbogi sýnir þessa dagana. Hann tekur líka þátt í Kirkjulistahátíð og leggur þar fram verkið Yfir og út. Þar hefur hann komið fyrir hljóðnemum í kirkjuskipi Hallgrímskirkju og sendir það yfir í hátalara í Ásmundarsal handan götunnar. „Þegar þú tekur upp hljóð inni og færir það á einhvern annan stað þá finnurðu fyrir rýminu í hinni byggingunni allt um kring.“

Sýning Finnboga Péturssonar í Hafnarhúsinu og á Kirkjuþingi.
 Mynd: RÚV

Í Ásmundarsal og Hallgrímskirkju hefur Finnbogi einnig komið fyrir álplötum sem notaðar eru í húsklæðningar. Sú í Ásmundarsal er koksgrá, sem er algengasti liturinn á nýbyggingum í Reykjavík, en í kirkjunni eru fjórar plötur, fjólublá, rauð, græn og hvít. „Þetta eru kirkjuárslitirnir. Ég tek þessa litapallettu og set hana í symbólískt samhengi við þá starfsemi sem er inn í kirkjunni og tengi þetta hugmyndalega og huglægt inn í það rými sem þetta er.“