Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Drápsglaður Duterte fádæma vinsæll heimafyrir

06.10.2016 - 05:45
epa05569293 Filipino President Rodrigo Duterte (C) raises his fist with military officers during a visit at the Philippine Army headquarters in Taguig City, south of Manila, Philippines, 04 October 2016. Philippine President Rodrigo Duterte visited Army
 Mynd: EPA
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, er vinsæll sem aldrei fyrr í heimalandi sínu, þótt alþjóðleg mannréttindasamtök og stjórnvöld í fjölda ríkja gagnrýni hann og stjórnarhætti hans harðlega og fordæmi aðfarir hans í málefnum fíkla og sakamanna fortakslaust. Niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar voru birtar eystra í dag, þremur mánuðum eftir að Duterte tók við embætti, sýna að 76% þátttakenda segjast ánægð með störf forsetans en aðeins 11% kveðast óánægð.

Á þeim þremur mánuðum sem Duterte hefur verið í embætti hafa yfir 3.000 manns verið teknir af lífi á Filippseyjum án dóms og laga, ýmist af lögreglu eða óbreyttum borgurum. Ef marka má niðurstöður könnunarinnar er almenningur á Filippseyjum hæstánægður með það.

Bandaríkin, nánasta bandalagsríki Filippseyja í varnarmálum, Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið, ásamt Amnesty International og fleiri alþjóðlegum mannréttindasamtökum, hafa verið í fararbroddi þeirra sem fordæma Duterte og morðölduna sem risið hefur í kjölfar embættistöku hans þann 30. júní, með hans blessun og jafnvel hvatningu, að því er best verður séð.

Duterte fékk aðeins 37,6% atkvæða í kosningunum í maí. Hann taldist engu að síður rétt kjörinn forseti, þar sem sömu lögmál gilda þar um í Filippseyjum og hér á landi: Sá telst rétt kjörinn forseti sem flest atkvæði fær, óháð því hvort hann fær meirihluta þeirra eða ekki.

Lofaði að útrýma glæpum og drepa tugi þúsunda

Eitt helsta kosningaloforð hans var að útrýma glæpum á sex mánuðum. Hét hann því að tugþúsundir myndu falla í leiftursókn hans gegn glæpum og glæpamönnum, einkum eiturlyfjaframleiðendum, -sölum og -fíklum. Jafnframt boðaði hann friðhelgi og sakaruppgjöf, sjálfum sér og lögreglunni til handa, ef einhver skyldi reyna að ákæra þá fyrir fjöldamorð.

Í síðustu viku hellti hann olíu á eld fordæmingarinnar erlendis frá, þegar hann kvaðst „glaður myndu slátra“ þremur milljónum eiturlyfjafíkla og líkti stríði sínu við glæpi við aðfarir HItlers og Þriðja ríkisins gagnvart Gyðingum. Hann baðst síðar afsökunar á helfararlíkingunni, en ítrekaði vilja sinn til að drepa alla eiturlyfjafíkla. 

Könnunin var gerð dagana 24. - 27. september. 1.200 manns voru spurðir hvort þeir væru ánægðir eða óánægðir með frammstöðu forsetans. Ekki var minnst sérstaklega á framgöngu hans gegn fíklum, glæpum og glæpamönnum.