Drangajökull minnkar eins og aðrir jöklar

06.11.2016 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Landmælingar Íslands - RÚV
Drangajökull er að minnka þótt hann geri það hægar en aðrir jöklar. Þá er hegðan mismunandi hluta jökulsins ólík. Þetta eru niðurstöður Eyjólfs Magnússonar jarðeðlisfræðings, sem er að ljúka við kortlagningu jökulbotns Drangajökuls.

Drangajökull á Vestfjörðum er ekki eins og jöklar eru flestir. Hann byrjar þar sem aðrir jöklar enda, er allur undir þúsund metra hæð og þá hafa verið fluttar fréttir af því hvernig jökullinn minnki ekki þótt aðrir jöklar geri það.

Það er þó kannski ekki alveg svo einfalt. Eyjólfur Magnússon jarðeðlisfræðingur hefur rannsakað jökulinn um árabil. Hann segir vesturhluta Drangajökuls sannarlega vera þann jökul sem hefur verið næst því að vera í jafnvægi síðustu 70 ár. „Hann er samt sem áður að þynnast, þótt það sé minna en aðrir jöklar. Á sama tíma og þessi vesturpartur jökulsins hefur verið að minnka svona hægt þá hefur austurparturinn verið að þynnast þrefalt hraða.“

Eyjólfur segir ekki alveg ljóst hvernig ráða megi í hegðan jökulsins. Snjósöfnun gæti haft áhrif á vestanverðan jökulinn en  þó sé hitastigið hærra þar en á austanverðum jöklinum. Rannsóknir Eyjólfs og samstarfsfélaga benda þó til þess að frá árinu 1946 til ársins 2011 hafi Drangajökull rýrnað talsvert minna en aðrir jöklar á landinu, þótt hlutfallslega sé það kannski sambærilegt.

„Hlutfallslega er þróunin þannig að það er álíka mikill rúmmálshluti sem hverfur af honum eins og vill vera í Langjökli. Er bara helmingi þykkari jökull.“ 
 
Rannsóknir Eyjólfs og samstarfsfélaga hafa helst falist í því að kortleggja jökulbotninn, þannig megi skoða hvernig jökullinn hefur þróast og mun þróast í framtíðinni, á næstu áratugum og öldum, svo lengi sem hann bráðnar ekki allur. 

 

Út frá mælingum hefur verið unnið eitt nákvæmasta botnhæðarkort sem til er af íslenskum jökli, sem og kort af jökulþykktinni. Rannsóknir sem geta verið mikilvægar fyrir áframhaldandi rannsóknir á jöklum. Eyjólfur og samstarfsaðilar hafa unnið út frá hæðarkortum, út frá loftmyndum, leysimælingum úr flugvél og gervihnattaljósmyndum.

Rannsóknirnar hefur Eyjólfur unnið í samstarfi vísindamenn á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, á Veðurstofunni og í samvinnu við Háskólann í Toulouse í Frakklandi.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi