Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Dramatískt og einlægt

Mynd: jak / jak

Dramatískt og einlægt

09.11.2018 - 13:09

Höfundar

Stefán Jakobsson, söngvari Dimmu, notast við listamannsnafnið JAK á fyrstu sólóplötu sinni. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Tónlistarlega man ég fyrst eftir Stefáni Jakobssyni í hljómsveitinni Douglas Wilson, þó ég hafi kynnst pilti mun fyrr. Hann lék svo með Alþingi, sem breyttist fljótt í THINGTAK. Hann fann svo heldur betur fjölina í Dimmu, og þeir fundu hann, en sigurganga þeirrar sveitar hefur verið með ólíkindum undanfarin misseri. Það var „gat“ á markaðnum eins og sagt er fyrir slíka sveit og þeir fylla það með stæl.

Alla tíð

Draumur um sólóplötu hefur þó lúrt í huga Stefáns alla tíð og hér er hún loksins komin. Boltinn fór að rúlla er Stefán kynntist Halldóri Á. Björnssyni úr Legend. Ákváðu þeir að leggja til lög úr sitthvoru púkkinu en Halldór eða Dóri sá auk þess um að keyra upp hljóðheim plötunnar. Hljóðfæraleikarar eru að stofni til Birgir Jónsson (trommur), Birkir Rafn Gíslason (gítar) og Hálfdán Árnason (bassi). Magnús Þór Sigmundsson aðstoðaði Stefán þá við textagerð.

Platan hljómar dálítið eins og sólóplata söngvara sem er í hljómsveit sem keyrir markvissan og árangursríkan feril. Stefán er því að koma frá sér efni sem passar mögulega illa innan Dimmurammans og hann leyfir sér að fara í hinar og þessar áttir. En platan er dálítið Dimmuleg líka, mikið drama í gangi, mikil epík, en í stað keyrslurokks er oft ballöðukennt tempó, það er leitað inn á við og útgangspunktur söngvaskáldsins stýrir vegferðinni. Það er oftast þungt yfir, textalega, lögin heita nöfnum eins og „Ánauð“, „Spegilbrot“ og „Hjartablóð“ og menn eru sorgmæddir, villtir eða á flótta uppi á fjöllum. Inn í tón- og myndmálið blandast heilmikið leikhús mætti segja, sum lögin eru söngleikjaleg, Meatloaf-leg jafnvel en Stefán hefur verið duglegur að syngja í ýmis konar tónleikauppfærslum hérlendis. Mér verður líka hugsað til rauðhærða riddarans, Eiríks Haukssonar, þegar hann tók slaginn fyrir Ísland í Söngvakeppninni hér um árið. Þannig er þessi plata JAK á vissan hátt, aðgengileg en um leið kröftug rokkplata.

Stefán er frábær söngvari, því er ekki að neita, og einlægnin er hans drýgsta vopn. Langbesta lagið er „Vatnið“, Stefáni er auðheyranlega mikið niðri fyrir í þessum fallega óð og hann skilar honum alla leið með glans. Kraftlög eins og „Flóttamaður“ og „Ánauð“ ganga þá vel upp í þessu kraftdrama sem Stefán afgreiðir eins og að drekka vatn. Ekki er þó allt jafn vel heppnað. Stefán á það til að vera tvístígandi stundum, „Eitt augnablik er endalaust“ fellur t.a.m. furðu flatt, versið í upphafi er stirðbusalegt en viðlagið réttir kúrsinn svo af. Þá verður aðferðafræði plötunnar dálítið þreytukennd er á líður. Lögin eru þá orðin hvert öðru lík, þar sem byrjað er með rólegum, dulúðlegum kafla en keyrt svo upp í viðlög sem eru alltaf sama flugeldasýningin. Það þarf ekkert alltaf að fara með þetta upp í ellefu. Textarnir eru undir sömu sök seldir, stundum ágætlega hittnir en eiga það líka til að vera óttalegt hnoð, þar sem seilst er í ódýrar lausnir. Lokalagið, „Moldin angar“, er dálítið skemmtilegt og kemur sem ferskur norðanblær undir rest. Tilraunakennt nokk og rafómar Halldórs gera vel, eins og svo oft á plötunni.  

Orka

Stefáni og félögum eru þannig dálítið mislagðar hendur hér, sumt gengur firnavel upp en annað miður. Einlægni og orka okkar manns er engu að síður mjög svo tilfinnanleg, út í gegn, og það verður ekki af honum tekið. Aðdáendur Dimmu, og unnendur ósvikins dramarokks með stóru D-i fá þá líka heilmikið fyrir sinn snúð.

Með því að smella á myndina efst í færslunni má heyra viðtal Þorsteins Hreggviðssonar í Popplandi, sem tekið var upp í beinni útsendingu frá Petersen svítunni, við þau Andreu Jónsdóttur og Arnar Eggert um Plötu vikunnar.