Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Draga úr vægi verðtryggingar

24.11.2011 - 18:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Fulltrúar allra flokka í efnahags- og viðskiptanefnd áætla að leggja fram þingmál á næstu misserum þar sem dregið verði úr vægi verðtryggingarinnar á Íslandi. Á það helst við um neytenda- og húsnæðislán.

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum í dag að hefja undirbúning að því að draga úr vægi verðtryggingar á Íslandi. Fyrst og fremst verður horft til neytendalána og húsnæðislána í þessu samhengi. Þverpólitísk samstaða var um málið sem allir þingmenn í nefndinni tóku þátt í að bóka. Áætlunina á að leggja fram sem þingmál og er stefnt á að það gerist innan nokkurra mánaða, í síðasta lagi um miðjan febrúar.

Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir að með þessu sé verið að svara ákalli þjóðarinnar.

Tryggiv Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd, segir vinnuna munu byggast á samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna og ályktunum annarra stjórnmálaflokka um efnið. Hann telur þetta afar jákvætt skref og sérstaklega að fulltrúar allra stjórnmálaflokka skuli stíga þarna fram innan efnahags- og viðskiptanefndar og ætli að hefja þessa vinnu. Hann segir að það sé ákall í þjóðfélaginu um að auka valkostina og minnka vægi verðtryggingarinnar og Alþingi sé að svara því kalli.

Flokkarnir hafa kynnt ólíkar hugmyndir um hvernig megi draga úr vægi verðtryggingarinnar hingað til. Tryggvi segir ekkert enn hafa verið rætt um hvernig þessi vinna verði útfærð eða hvaða leiðir verði farnar til að ná takmarkinu. Nefndarmenn séu bara orðnir sammála um að þeir muni allir standa að þessu í samvinnu.

Höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað um 24% frá hruni vegna verðbóta. Í tveggja og hálfs árs gamalli samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að óskað verði eftir mati Seðlabankans á því hvernig best verði dregið úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi. Ekki hvort - heldur hvernig. Seðlabankinn kannast reyndar ekki við að hafa fengið slíka beiðni en efnahags- og viðskiptaráðherra skipaði hins vegar svokallaði verðtrygginganefnd með fulltrúum ráðuneyta og stjórnmálaflokka sem kannaði forsendur verðtryggingar á Íslandi og mat hvaða kostir væru hagfelldastir í því skyni að draga úr vægi hennar. Eftir að nefndin skilaði niðurstöðum sínum í vor virðist pólitískur vilji til að draga úr vægi verðtryggingarinnar hafa aukist.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði til dæmis um helgina að færa niður höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána og að verðtrygging neytendalána ætti ekki að vera valkostur. Samfylkingin ályktaði á sínum landsfundi í október að taka frekari skref til að draga úr vægi verðtryggingar og á svipuðum tíma  ályktuðu Vinstri græn á sínum landsfundi að endurskoða lög um húsnæðismál þannig að þau taki mið af þörfum landsmanna en snúist ekki eingöngu um veðlán á alltof háum verðtryggðum vöxtum.

Framsóknarmenn í verðtryggingaenfndinni vildu að byrjað yrði að draga strax úr vægi verðtryggingar. Til dæmis með því að setja þak á hækkun verðtryggingar á hverju ári. Undir þetta sjónarmið tóku fulltrúar Hreyfingarinnar og Vinstri grænna í nefndinni.

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa þegar lagt fram tillögu þess efnis á Alþingi að höfuðstóll íbúðalána verði færður niður miðað við vísitölu verðtryggingar fyrir hrun.