Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Downs fóstrum mun oftar eytt á Íslandi

10.03.2016 - 21:44
Ágústa Hlín Snorradóttir
 Mynd: ruv
Þórdís Ingadóttir, dósent í löfræði við HR og formaður Downs-félagsins.
Þórdís Ingadóttir formaður Downs-félagsins og móðir Ágústu Mynd: ruv
Ágústa Hlín
 Mynd: ruv
Skimun og eyðingar á fóstrum með Downs-heilkenni eru hvergi eins miklar og á Íslandi. Heimsmet okkar á þessu sviði er farið að vekja athygli út fyrir landsteinana, segir formaður áhugafólks um Downs-heilkennið.

Ágústa Hlín er ein af þremur börnum sem fæddust með Downs-heilkenni árið 2009. 

Móðir hennar, Þórdís Ingadóttir, dósent í lögfræði við HR og formaður Downs-félagsins, segir að það hafi ekki verið áfall. 
 

„En það eru náttúrlega margir sem fá það, sem er alveg skiljanlegt í þessu samfélagi þar sem er svo mikið stigma gegn þessu.“

Átta börn síðustu fjögur ár

Áttatíu prósent íslenskra kvenna velja að láta skima fyrir Downs-heilkenni á meðgöngu sem er meiri þátttaka en þekkist í nágrannalöndum. Til dæmis má nefna að 50 prósent kvenna í Svíþjóð fara í skimun og 30 prósent kvenna í Hollandi. 

Farið var að skima hér á land um síðustu aldamót og síðan þá hefur fólki með Downs fækkað. Tvö börn hafa fæðst á ári á liðnum fjórum árum.   

Á sama tíma hefur fóstureyðinum fjölgað. Til dæmis greindust árið 2013 fimmtán fóstur með Downs og var þeim öllum eytt.  Það ár fæddust tvö börn með Downs.   

Þessi mikla þátttaka hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og er breska ríkisútvarpið BBC að gera sjónvarpsþátt þar sem þetta er tekið fyrir. 

„Þetta er eitt af því sem við Íslendingar eigum heimsmet í og eitthvað sem ég er ekki stolt af sem hluti af þessu samfélagi.“

Breska ríkisútvarpið heimsótti Þórdísi og spurði hana hvers vegna Downs-fóstrum væri eytt á Íslandi. Hún gat ekki svarað spurningunni. 

„Ég er enn að leita svara og óska eftir mikilli umræðu um þetta.“

Telur„kembileit“ ekki hlutverk ríkisspítala

Nú stendur til að taka upp nýja tækni á Landspítalanum til að greina litningagalla í fóstri sem leitar betur uppi fóstur með Downs.   

„Við erum með hér á heimsvísu með skimun og fórstureyðingar á fötluðu fólki svo að ég held að það geti bara ekki farið af stað nema að endurskoða alla verkferla eins og þeir eru í dag.“

„Við erum alveg komin að mörkum friðhelgi einkalífs ef heilbrigðisstétt er aftur og aftur að bjóða konu í fóstureyðingu og fósturskimun út af einhverju ástandi fósturs sem þau telja hættu á.“

„Og það á ekki að vera hlutverk ríkisspítala að standa í slíkri kembileit.“
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV