Dorrit stöðvaði för fyrirmenna vegna hunds

18.07.2018 - 14:04
Mynd: RÚV / RÚV
Dorrit Moussaieff, eiginkona Ólafs Ragnars Grímssonar fyrrverandi forseta, stal senunni í aðdraganda hátíðarfundarins á Þingvöllum. Dorrit og Ólafur voru fremst í hópi fyrirmenna sem gengu eftir Almannagjá að fundarstaðnum. Með í för voru biskup Þjóðkirkjunnar, nokkrir fyrrverandi forsetar Alþingis og núverandi og fyrrverandi forseti Hæstaréttar. Þegar hersingin beygði úr Almannagjá í átt að þingpöllunum kom Dorrit auga á fjárhund meðal áhorfenda og gekk rakleitt að honum.

Dorrit ræddi stutta stund við konu sem var með tvo fjárhunda hjá sér. Upp úr því fékk Dorrit tauminn á öðrum hundinum og sneri aftur í hóp fyrirmennanna. Að því loknu hélt hópurinn göngu sinni áfram að fundarsvæðinu með Dorrit og fjárhundinn fremst í fylkingu. 

Þess má geta að í dag er dagur íslenska fjárhundsins.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi