Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Dónaskapur gagnvart danska þjóðþinginu“

18.07.2018 - 14:24
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir umræðu um þátttöku Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, í hátíðarfundi á Þingvöllum. Bjarni segir að það sé „yfirlæti og beinlínis dónaskapur gagnvart danska þjóðþinginu og dönsku þjóðinni“ að virða ekki embætti danska þingsins. Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir miður að fulltrúi Dana sé boðberi framtíðarsýnar sem fylli sig óhugnaði með fjandsamlegri afstöðu til innflytjenda.

Bjarni birti færslu á Facebook um það bil sem hátíðarfundurinn á Þingvöllum var að hefjast. Þar leggur hann út af umræðunni um þátttöku Piu Kjærsgaard í fundinum. Margir hafa tjáð sig um fundinn á samfélagsmiðlum og gagnrýnt nærveru Kjærsgaard vegna skoðana hennar og framgöngu í málefnum innflytjenda. Þingflokkur Pírata ákvað að sniðganga fundinn vegna hlutverksins sem danski þingforsetinn fer með á þinginu.

Bjarni segir að til sé fólk sem slái reglulega um sig með því að leggja áherslu á lýðræðið, svo sem um frelsi fólks til að koma skoðunum sínum að og um rétt minnihlutahópa. „Það er hins vegar svo að þegar á reynir er eins og þetta sama fólk eigi erfiðast með að virða niðurstöðu þeirra leikreglna sem best tryggja lýðræðislega niðurstöðu. Það hikar ekki við að segja tiltekna rétt kjörna einstaklinga óalandi og óferjandi, jafnvel með öllu óvelkomna og óhæfa til samskipta.“ Svo sé það þannig að þegar Alþingi bjóði forseta danska þjóðþingsins að vera viðstaddur hátíðarhöldin í dag finnist þessu fólki við hæfi að útiloka þann einstakling, sem þó hafi verið kosinn í frjálsum almennum kosningum.

„Ég deili ekki skoðunum viðkomandi stjórnmálamanns á ýmsum hlutum og hef skilning á því að fólk hafi skoðun á og sé ósammála áherslum hans. En það er óskylt lýðræðinu að virða ekki embætti danska þingsins. Það er yfirlæti og beinlínis dónaskapur gagnvart danska þjóðþinginu og dönsku þjóðinni. Það er mitt viðhorf,“ segir Bjarni.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir að það sé ekki óeðlilegt í ljósi sögunnar að forseti danska þingsins sé sérstakur gestur fundarins „en því miður er sá gestur fulltrúi skoðana sem varpa dökku skýi á þessa stund“. Hanna Katrín segir að Kjærsgaard sé boðberi framtíðarsýnar sem fylli sig óhugnaði með sína fjandsamlegu afstöðu til meðal annars innflytjenda og flóttafólks. „En þetta er okkar partý, ekki hennar! Lifi frjálslyndið, jafnréttið og mannúðin. Til hamingju með afmælið.“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir Kjærsgaard einnig og segir að hátíðarfundurinn sé sveipaður dökku manngerðu skýi mannhaturs og fjandsamlegrar afstöðu til innflytjenda og flóttafólks. Hún segist því alveg laus við hátíðarskapið en mæti þó á fundinn af virðingu við starf sitt, land og þjóð. „Engin helgislepja, ekkert annað en það að þetta er þingfundur og mér finnst ótækt að mæta ekki. Þetta er ekki heiðurssamkoma danska fulltrúans, heldur heiðurssamkoma fyrir Ísland sem fullvalda ríki.“