Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Dómurum við Hæstarétt fjölgar

12.07.2015 - 17:57
Mynd með færslu
Á myndinni eru málverk sem hanga í húsakynnum Hæstaréttar. Mynd: rúv
Ákveðið hefur verið að fjölga dómurum við Hæstarétt tímabundið um einn. Innanríkisráðuneytið auglýsti embætti hæstaréttardómara laust til umsóknar í vikunni.

Frá því í mars á síðasta ári hafa dómarar við Hæstarétt verið níu, en í vor samþykkti Alþingi einróma að fjölga þeim um einn.

Lög þess efnis tóku gildi í vikunni en samkvæmt þeim verða tíu dómarar starfandi við réttinn fram til ársins 2017. Eftir það verður ekki skipað í embætti sem losna og þannig fækkar dómurum aftur.

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis, segir að fjölgunin hafi verið nauðsynleg.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum þá hefur álag á réttinn aukist mjög mikið og málafjöldi hefur aldrei verið meiri. Að hluta til skýrist það af hrunmálunum sem enn eru inni í dómskerfinu. Það er nú helsta ástæðan. Við þurfum að gæta að því að málshraði í dómskerfinu sé viðunandi,“ segir Unnur Brá.

Árið 2011 var dómurum við Hæstarétt fjölgað um þrjá vegna álags eftir hrun fjármálakerfisins og gert ráð fyrir því að þeir yrðu 12 talsins næstu ár. Þá var ákveðið að skipa ekki í dómaraembætti sem losnuðu eftir 1. janúar árið 2013, en þannig fækkaði þeim aftur.

Spár um að draga mundi úr málafjölda í Hæstarétti hafa ekki gengið eftir. Í ársskýrslu Hæstaréttar fyrir árið 2014 kemur fram að skráð ný mál hafi aldrei verið fleiri við réttinn, en þeim fjölgaði um 13% frá árinu áður.

„Tímabært að sjá fleiri konur“
Nú er stefnt að því að skipa nýjan dómara frá og með 1. október. Unnur segir að það verði spennandi að sjá hverjir gefa kost á sér.

„Það er ekki mitt að hafa skoðun á því hverjir það ættu að vera. Það væri vissulega tímabært að sjá fleiri konur í Hæstarétti og væri vel við hæfi að þær myndu alla vega sækjast eftir því,“ segir Unnur.

Eins og stendur starfar tvær konur sem dómarar við Hæstarétt.

Athugasemd:
Upphaflega stóð í fréttinni að aðeins ein kona starfaði sem dómari við Hæstarétt. Hið rétta er að þær eru tvær. Annars vegar Gréta Baldursdóttir og hins vegar Ingveldur Einarsdóttir, sem var sett dómarið árið 2012 til að gegna embætti Páls Hreinssonar, en hann er í leyfi meðan hann gegnir dómarastarfi við EFTA-dómstólinn.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV