Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Dómur þyngdur yfir Jean-Claude Arnault

03.12.2018 - 13:41
Mynd með færslu
Jean-Claude Arnault gengur úr réttarsal eftir yfirheyrslu fyrir áfrýjunardómstóli í Stokkhólmi. Mynd:
Áfrýjunardómstóll í Svíþjóð þyngdi í dag fangelsisdóm yfir Frakkanum Jean-Claude Arnault í tvö og hálft ár fyrir að hafa nauðgað tveimur konum. Undirréttur dæmdi hann í haust í tveggja ára fangelsi.

Arnault var þungamiðjan í hneykslismáli sem hefur skekið sænsku Nóbelsverðlaunanefndina í rúmt ár, eða síðan dagblaðið Dagens Nyheter birti ásakanir átján kvenna sem sökuðu hann um nauðgun, kynferðislega áreitni, ofbeldi og fleiri sakir síðastliðin tuttugu ár. Arnault er eiginmaður skáldkonunnar Katarinu Frostenson. Hún átti sæti í akademíunni sem sér um að velja úr tilnefningum til bókmenntaverðlauna Nóbels. Ágreiningur varð í nefndinni um hvernig taka bæri á ásökunum á hendur honum sem leiddi til þess að nefndin varð óstarfhæf.

Arnault hefur um langt skeið verið áhrifamaður í sænsku menningarlífi. Hann hefur meðal annars verið sakaður um að hafa ljóstrað því upp hverjir hlytu bókmenntaverðlaun Nóbels áður en akademían greindi formlega frá því. Mál Arnaults varð til þess að verðlaununum var ekki úthlutað í ár.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV