Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Dómur fæli fólk frá notkun deilisíðna

14.10.2014 - 19:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdastjóri STEFS telur að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um að lögbann skuli sett á aðgang að deilisíðunum Deildu.net og Pirate Bay marki tímamót. Hann sé fordæmisgefandi og eins gefi reynslan erlendis til kynna að svona dómar fæli fólk frá notkun deilisíðna.

 

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fyrirskipað lögbann á aðgang netnotenda Vodafone og Hringdu að vefsíðunum deildu.net og Pirate Bay. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk fjarskiptafyrirtæki eru látin loka á tilteknar vefsíður vegna höfundaréttar. Óvíst er hvort að málinu verði áfrýjað.

Tugir þúsunda íslenskra tölvunotenda hafa nýtt sér vefsíðuna deildu.net og sambærilegar síður til að sækja sér höfundarréttarvarið íslenskt efni. STEF, samband tónskálda og eigenda flutningsréttar fór fram á í fyrra að Sýslumaðurinn í Reykjavík setti lögbann til að takmarka aðgang að efninu. Nýtt ákvæði var sett í höfundalög árið 2010 sem heimilar lögbann á milliliði, eins og fjarskiptafyrirtæki, til að koma í veg fyrir dreifingu á höfundaréttarvörðu efni. Sýslumaður hafnaði þó kröfunni - en fjölskipaður héraðsdómur snéri niðurstöðunni við í dag í tilviki Vodafone og Hringdu. Mál gagnvart Símanum og Tali eru í kerfinu.

Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Stefs, segir dóminn marka tímamót. „Hann hefur fyrir okkur fyrst og fremst fordæmisgildi. Og vonandi gerir það að verkum að þegar það koma fleiri svona síður á Íslandi eða erlendar síður eru orðnar mjög stórar hér á Íslandi þá gætum við á aðeins auðveldari hátt í staðinn fyrir að fara í gegnum svona langt dómsmál til að loka aðgengi að síðum.“

En jafnvel þótt símafyrirtækin loki fyrir aðgang að síðunum er lítið mál að komast inná þær í gegnum staðgöngusíður - eða proxí-síður. Þá virkar ekki lokunin. Guðrún Björk segir baráttuna þó ekki tapaða. „Við höfum allavega gögn erlendis frá sem sýna að þegar svona síðum er lokað þá er aðeins erfiðara að finna ólöglega efnið. Þá eru margir sem hætta við og kannski með dómi eins og þessum í dag gerir fólk sér grein fyrir því hvað er ólöglegt þannig að það hefur kannski einhver fælingaráhrif líka. Þannig að þótt það spretti upp nýjar og nýjar síður þá er baráttan ekki töpuð nei.“